Ég skrifaði pistil undir þessari fyrirsögn á síðuna ithrottir.is árið 2011 og fékk hann talsverða athygli enda hann skrifaður viljandi í þannig stíl. Sérstaklega gaman hafði ég af því að fá langan tölvupóst frá einum sjúkraþjálfaravini mínum sem ekki var alveg sammála mér. Ég stakk upp á því að við myndum standa í opinberum ritdeilum, upp á gagn og gaman, en ég gaf mér aldrei tíma í það. Kannski að ég komi þeirri ritdeilu af stað í kjölfarið á þessari endurbirtingu.

Í mjög stuttu máli, máli sem ég mun eflaust ræða mun ítarlega einhvern tímann seinna hér á þessari síðu, þá gengur hugmyndafræðin sem ég vinn eftir út á það að þjálfa búkinn upp í samræmi við þá vinnu sem hann er að vinna mest megnis af tímanum. Sú vinna einkennist af því að streitast á móti hreyfingum á búk en ekki búa til hreyfingu. Þegar við til dæmis sprettum úr spori þá viljum við að búkurinn haldist stöðugur á meðan útlimirnir framkvæma kröfugar hreyfingar. Þess vegna viljum við frekar framkvæma alls kyns plankaæfingar í stað þessa gera kviðkreppur, því ef þú pælir í því þá framkvæmum við sárasjaldan þá hreyfingu í daglegu lífi.

Það sem ithrottir.is er hætt þá ákvað ég að endurbirta og geyma þennan pistil hér:

Kviðkreppur

“Magaæfingar” – rót alls ills?

Gerir þú magaæfingar? Hefur þú kannski einhvern tímann gert magaæfingar til að fá magavöðva eða losna við björgunarhringinn? Ef svo er þá ert þú á algjörum villigötum og ég skal segja þér af hverju.

Augljósa vitleysan, sem margir hafa þó áttað sig á, er sú að það að kreppa kviðvöðvana hefur ekkert með meltingarlíffærið magann að gera. Hugsanlega mætti einhvern veginn líta á inntöku matar sem “æfingu” fyrir magann en að sjálfsögðu er átt við kviðæfingar í þessu samhengi. Í öðru lagi þá er ekki hægt að brenna fitu staðbundið með æfingum sem kunna að reyna á vöðva sem liggja nálægt óvinsæla fitulaginu.

Það sem kannski færri vita er að eitt aðalhlutverk kviðveggsins er að streitast á móti ofréttu (fettu) á hryggsúlunni. Æfingar eins og plankar með ýmsum afbrigðum geta reynt mjög á kviðvöðvana þegar þeir berjast við að halda hryggsúlunni í eðlilegri stöðu. Það sem slíkar æfingar hafa fram yfir hefðbundnar kviðkreppur er að þær vernda brjóskið á milli hryggjaliðanna ef rétt er farið að, í stað þess beygja hryggsúluna í sífellu sem verður til þess að brjóskið bungast út baklægt. Prófaðu að gera eins margar kviðkreppur í röð og þú getur og kannaðu hvað gefur sig fyrst. Líklega verður það stingur í mjóbakinu sem kemur til þegar brjóskið gægist út og þrýstir á nærliggjandi taugar, sem við sífelldar endurtekningar getur þróast út í brjósklos.

Hafðu þetta í huga næst þegar þú “tekur maga” í ræktinni.