Ég byrjaði að þjálfa árið 2005 og þá fyrir algjöra tilviljun. Ég hafði fram að því látið mér nægja að vera stútfullur af sjálfum mér og hvernig best væri að ég sjálfur æfði. Það hvarflaði ekki að mér að eitthvað að þeirri vitneskju gæti nýst öðrum, fyrr en ágætir menn ýttu mér inn í þjálfarastarfið. Ég fann þá strax að ég hafði fundið mína hillu.

Má ég kynna fyrir ykkur Coach Frankenstein

Ég hef mikla ástríðu fyrir því að búa til íþróttamann. Að hafa áhrif á framgöngu hans inni á íþróttavellinum. Að gera einhvern betri í dag en hann var í gær. Það er gríðarlega nærandi fyrir þjálfarann að verða sjálfur vitni af framförum eða fá staðfestingu annarra á þeim. Innst inni snýst þetta í raun um að búa til betri einstakling, betri samfélags- þátttakanda og það hafa jákvæð áhrif á umhverfið gegnum annað fólk. Á yfirborðinu látum við þetta snúast um það að gera hvern og einn leikmann betur í stakk búinn til þess að takast á við þau verkefni sem mæta honum á íþróttavellinum, sem eru á sama tíma einfaldaðar útgáfur af verkefnunum sem mæta okkur dags daglega utan vallar. Þessi pistill er létt samantekt á því hvernig sýn mín á það hvernig sé best að “búa til íþróttamann” hefur þróast þennan sl. tæpan áratug, og hvernig ég nýlega áttaði mig fyllilega á því að ég var að misskilja það allt, alveg frá upphafi!

Fyrsta þjálfunarverkefnið mitt var 2. flokkur karla í fótbolta. Ekkert mál – hélt ég. Gera einhverja unga menn betri í fótbolta, væntanlega með því bara að æfa fótbolta. En eftir 1-2 mánuði í því starfi sá ég að ég þyrfti að kafa dýpra og eiga eitthvað við ísjakann undir yfirborðinu. Ég var nefnilega á sama tíma að spila með meistaraflokki félagsins og það sem ég sá fljótt var að margir af þessum 16-19 ára guttum voru jafn góðir í fótbolta og margir af þeim sem ég var að spila með. Þeir höfðu jafnvel betri tæknilega getu, skildu leikinn betur og sumir hverjir voru meira helgaðir íþróttinni en mínir samherjar. Hvers vegna voru þeir þá ekki að spila með mér í meistaraflokki? Svarið var einfalt: Vegna líkamlegu (van)getunnar. Þessa stráka skorti einfaldlega styrk og hraða til þess að leika með meistaraflokki, ekkert annað í mörgum tilfellum. Svo ég dreif þá inn í lyftingasal, “lét þá lyfta” og gerði einnig mikið af líkamlegum æfingum úti á velli. Ég gerði svo sem ekki merkilega hluti með þessum hópi þar sem ég hafði á þessum tíma enga mótaða hugmyndafræði né í raun almennilega vitneskju um það hvernig ætti að undirbúa íþróttamann líkamlega fyrir sín átök. Nánast alveg síðan þá hef ég numið líkamlegu fræðin af ákefð og verið boðberi þeirra tíðinda að líkamleg þjálfun íþróttamanna verði að vera á sama háa stalli og íþróttaþjálfunin sjálf er komin upp á á mjög mörgum íþróttafélögum.

Stundum er maður bara ekki líkamlega tilbúinn í átökin!

En sl. ár hef ég æ meir opnað augun fyrir því að þetta dugir heldur ekki til. Það er ekki nóg að viðkomandi búi yfir leikskilningi, tæknilegri getu og nægu líkamlegu atgervi. Ísjakinn undir yfirborðinu er alltaf að stækka fyrir mér. Andlegur styrkur og karakter leikmanns eru alveg jafn mikilvægir þættir. Og hvernig þjálfum við þá? Ef líkamlega þjálfunin er “akur” sem við erum rétt byrjuð að reyna að átta okkur á hvernig er best að plægja, þá er andlega þjálfunin málmnáma á Mars sem við erum búin að senda einn lítinn geim-jeppa til að kíkja á!

Staðreyndin er einfaldlega sú að langflest í mótun íþróttamanna á Íslandi er handahófskennt. Hvaða íþróttamenn eru það sem lifa af í kerfinu okkar og ná í gegn upp á topp? Eru það endilega hæfileikaríkustu íþróttamennirnir? Ég hugsa að það eigi við um flesta þjálfara að fyrir hverja sögu sem þeir kunna um leikmann sem lofaði góðu strax í æsku og endaði sem toppíþróttamaður, þá kunna þeir amk. þrjár sögur á móti um leikmenn sem voru mikil efni “EN … …. “.

Af hverju ætli það sé?

Eftir að hafa nú í um áratug fylgst mjög náið með framgöngu mýmargra ungra íþróttamanna í hinum ýmsu greinum, hjá stóru félagi í íslenskum mælikvarða, eftir fleiri hundruð samræður við aðra þjálfara um unga leikmenn og vangaveltur um hvort þessi eða hinn muni enda sem meistaraflokksleikmaður eða eitthvað meira, þá hef ég komist á þá skoðun að tæknileg og líkamleg geta leikmanna hefur ekki það forspárgildi um framtíð leikmannsins sem við höfum gert ráð fyrir. Í dag hef ég meiri áhuga á að meta efnilegan leikmann í gegnum gleraugu spurninga eins og: 

  • Hver eru persónuleg gildi íþróttamannsins og hvaðan komu þau gildi, ef einhver eru?
  • Hvaða venjur hefur hann tileinkað sér í lífinu, meðvitað og ómeðvitað, bæði innan vallar en öllu fremur utan vallar?
  • Hvað viljastyrk býr viðkomandi yfir? Hvaða hluti af honum er “genetískur” og hvaða hluti af honum er mótaður af umhverfi/upplifunum/fyrirmyndum viðkomandi?
  • Gleðin – Brosir viðkomandi reglulega inni á æfingum og í leikjum?
  • Hversu sterkur er innri hvati leikmannsins gagnvart sinni íþrótt?
  • Fyrir hverju stendur hann sem persóna í dag og veit hann fyrir hverju vill hann standa sem fullmótaður einstaklingur í náinni framtíð?
  • Veit hann að hverju hann stefnir í lífinu og hvernig passar íþróttin inn í þá framtíðarmynd?
  • Hvaða karakter hefur hann að geyma; Hvaða hegðun og framkomu sýnir hann innan vallar sem utan?
  • Hvernig bregst hann við mótlæti – hvernig tekur hann velgengni og mikilli jákvæðri athygli?

 

Undir ísjakanum

Það sem þjálfarar sjá dags daglega inni á vellinum er bara toppurinn á píramídanum og hvílir á fjölmörgum breiðari undirstöðum. Reyndu að eiga við það sem er undir yfirborði ísjakans og þá mun eitthvað virkilega róttækt gerast hjá viðkomandi!

Hvernig tengjast þessar pælingar allar því að búa til góðan íþróttamann?

Ég hef það sterkt á tilfinningunni að áhrif okkar sem hefðbundinna íþrótta- og styrktarþjálfara á íþróttamanninn séu oft ofmetin. Það sem við gerum dags daglega á vellinum eða inni í sal með okkar íþróttamönnum er ekki að fara hafa úrslitaáhrifin á það hvort viðkomandi nái alla leið eða ekki. Það er t.d. voða gaman að fá til sín algjöra topp íþróttamenn í þjálfun, en ég er algjörlega meðvitaður um að þessir einstaklingar eru komnir af eigin verðleikum á þann stað sem þeir eru á og tímabundin þjálfun mín er ekki að fara að breyta því svo mikið. Vissulega er krefjandi að gera 99% mann að 100%, en mesta áskorunin hlýtur að vera að afsanna kenninguna um “kjúklingasalatið úr kjúklingaskítnum”!

Ertu viss?

Hvernig á svo að eiga við ísjakann undir yfirborðinu?

Ég veit það ekki! Vonandi get ég skrifað pistil eftir 10 ár og “sagt þér” lesandi góður hvernig á að gera það, og þá eftir að hafa fengið næga reynsla af þeim tilraunum sem ég er að prufa mig áfram með á þessu sviði í dag. Ég held að fyrsta skrefið sé að sýna auðmýkt og átta sig á því að við þjálfararnir höfum ekkert úrslitavald í okkar höndum með því einu að skrifa einhverja tímaseðla, stilla upp nokkrum æfingum í viku og kalla á leikmanninn og hvetja hann áfram í átökunum. Við viljum halda það, sérstaklega þegar einhver frá okkur verður toppíþróttamaður, en þá verðum við að þora að spyrja okkur að því hvers vegna einhver annar úr hópnum varð það ekki? Erum við “saklaus” af því?

Næsta skrefið er að líta á sitt hlutverk sem leiðbeinanda, frekar en þjálfara, sem beinir einstaklingnum leiðina inn um næstu viðeigandi dyr í átt að því að verða íþróttamaður. Við þröngvum engum í gegn – getum bara reynt að hafa áhrif á umhverfi viðkomandi þannig að það kvikni innri hvati hjá honum til þess að fara sjálfur í gegnum dyrnar. Svo endurtökum við það með næstu dyr .. og næstu dyr …. ….