_J3Z4211Þar til ég byrjaði að þjálfa aðra þá má segja að ég hafi þjálfað sjálfan mig sem íþróttamann, en líklega hafa fæstir framkvæmt þær tilraunir á sér sjálfum sem ég hef gert þegar kemur að líkamanum, mataræði og lífstíl. Þjálfaraferillinn hófst árið 2005 og frá 2008 hef ég verið þjálfari í fullu starfi.  Stærsti hluti þjálfunarinnar sem ég hef sinnt sl. ár snýr að styrktarþjálfun og einstaklingsþjálfun íþróttamanna. Talsvert hefur safnast í reynslubankann á þessum árum og sérstaklega sl. 4 ár eftir að ég færði mig að mestu úr einstaklingsþjálfun yfir í þjálfun íþróttahópa. Síðan þá hef ég að jafnaði skipulagt og séð um styrktarþjálfun um 300-350 íþróttamanna í hverri viku. Það gera um 35-40 styrktaræfingar hjá ca. 25 íþróttaflokkum sem mæta frá 1-3 sinnum í viku inn í lyftingasal.

Ég valdi íþróttahópa fram yfir einstaklinga af þeirri einu ástæðu að þar sá ég fram á mun meiri möguleika á því að auka við mína reynslu. Í staðinn fyrir að vera með 15-20 manns í einstaklingsþjálfun þá kemur margfalt meiri reynsla á æfingarnar og þjálfunina með því að renna nokkur hundruð manns í gegnum sín prógrömm.

 • Hvað virkar og hvað virkar ekki?
 • Virkar æfing A betur en æfing B til að ná ákveðnu markmiði?
 • Virkar æfing A ennþá betur ef hún er þjálfun svona eða hinsegin?

Svörin við slíkum spurningum er það sem ég er að leita eftir. Í leitinni að þessum svörum tel ég að það hjálpi mér mikið að hafa fjölbreyttan íþróttabakgrunn og hafa aldrei átt í neinu sérstöku ástarsambandi við neina eina eða aðra leið til þess að (styrktar)þjálfa íþróttamenn. Mér er fullkomnlega sama þótt að það sé keppt í einhverri ákveðinni styrktaræfingu (sbr. kraftlyftingar og ólympískar lyftingar) eða að eitthvað hafi verið gert voðalega lengi af mörgum. Slíkt einfaldlega dugir mér ekki þegar ég stend frammi fyrir því að setja saman æfingaáætlanir fyrir íþróttafólk. Það sem stýrir för á hverri stundu er það sem vitneskja mín og reynsla segir mér að sé:

 • Öruggast
 • Einfaldast að þjálfa upp
 • Bætir mest frammistöðu íþróttamannsins.

Annað sem ég tel að hjálpi mér í leitinni að fullkomnu þjálfunaraðferðunum er það að ég er sjálfur virkur íþróttamaður. Ég hef leikið eitthvað yfir 250 meistaraflokksleiki í knattspyrnu bæði á Íslandi og í Svíþjóð og hef samhliða þeim ferli reynt að viðhalda mínum fjölbreytta íþróttabakgrunni úr minni æsku, með því að stunda aðrar íþróttagreinar á meðan svo sem körfubolta og fimleika. Um leið og ég byrjaði að þjálfa árið 2005 þá breyttist hugsunarháttur minn sem leikmaður. Ég fór að hugsa þjálfun, æfingar og leikinn út frá sjónarhóli þjálfarans. Frá því 2008 hef ég haldið utan um allar þjálffræðipælingar sem hafa komið upp í huga minn í einu word-skjali sem ég kalla “Brainstorm – þjálfa meistaraflokk”. Allt sem ég upplifi sjálfur undir stjórn minna þjálfara, bæði það sniðuga og það vitlausa, það sem ég tek eftir að aðrir þjálfara eru að gera vel eða illa – allt þetta hefur hafnað í skjalinu góða. Þegar ferli mínum sem leikmaður lýkur þá mun ég hafa ansi mótaðar hugmyndir um það hvernig eigi að þjálfa meistaraflokk.

ÍR Haukar 2007

17 tímabil í meistaraflokki! Sem þjálfandi leikmaður hugsa ég og sé leikinn talsvert öðruvísi en ég gerði áður en ég byrjaði að þjálfa.

Ég reyndi það sem margir hafa reynt og komst að sömu niðurstöðu og flestir þeir sömu komast að; Það er ómögulegt að vera leikmaður og á sama tíma þjálfa íþróttaflokka. Annað hvort mun alltaf líða fyrir það. Ég vildi samt ekki hætta að taka minn feril alvarlega en ég fann á sama tíma að þjálfun var það sem ég vildi starfa við. Í staðinn fyrir að gefa annað hvort upp á bátinn fann ég mér og skapaði verkefni sem sköruðust mun minna á meistaraflokksferilinn, sérstaklega yfir sumartímann.

Mitt stærsta verkefni í dag er styrktarþjálfun hjá Haukum þar sem ég sé um styrktarþjálfun allra flokka í handbolta, fótbolta og körfubolta. Að auki hef ég sl. 5 ár haldið utan um Afreksþjálfun félagsins sem samanstendur af Afreksskóla Hauka og Afrekssviði Hauka og Flensborgar. Inn í Afreksskóla Hauka eru valdir efnilegustu 14-16 ára leikmenn félagsins til að mæta 2x í viku á séræfingar og 1x í viku í bóklegan fyrirlestur yfir allan skólaveturinn. Afrekssvið Hauka er sambærilegt verkefni fyrir framhaldsskólakrakka og er í samvinnu við Flensborgarskóla. Að auki hef ég sinnt ýmsum minni verkefnum eða verið ráðgefandi hjá t.d. Stjörnunni, Golfklúbbnum Keili, Selfoss, KR, Fjölni, Grindavík, Hetti, Skallagrími, HSÍ og KSÍ.

_J3Z4231

Haukar eru, eftir því sem ég best veit, eina félag landsins sem er með markvisst styrktarþjálfunarprógramm sem hluta af þjálfun allra leikmanna 13 ára og eldri í öllum deildum félagsins.

Árið 2008 tók ég þá happadrjúgu ákvörðun að sækja um ÍAK Einkaþjálfaranám Keilis. Ég naut mín sérlega vel í því námi og var í þeirri einstaklega góðu stöðu að geta prufukeyrt allar pælingarnar í náminu þar sem ég gerði ekkert annað en að þjálfa einstaklinga á þessum tíma. Námslega gekk mér eins og lygasögu og bauðst svo að árslanga náminu loknu að sinna tímakennslu í þjálffræðinni í náminu, sem ég hef gert alla tíð síðan. Þessi kennsla er frábær viðbót við það sem ég geri dags daglega. Að þurfa að þekkja þjálffræðina inn og út og á sama tíma fylgjast vel með og skilja nýja strauma og stefnur í styrktarþjálfun þannig að maður geti útskýrt og rætt um við aðra áhugasama um efnið – ég geri fátt skemmtilegra en það.

Í dag er líf mitt gegnumsýrt af þjálfun og íþróttum. Ég uni því vel og sé ekki fram á endinn á því heldur hef háleit markmið á þessum vettvangi og bíð spenntur eftir því að ná þeim og þróast í þessu starfi.

Menntun

 • Stúdent af Náttúrufræðibraut frá Flensborgarskóla 1999
 • Fil. Kandidat í tónlistarfræðum frá Gautaborgarháskóla 2003
 • Fil. Magister í tónlistarfræðum frá Gautaborgarháskóla 2005
 • ÍAK Einkaþjálfari frá Keili 2009
 • ÍAK Íþróttaþjálfari frá Keili 2010
 • KSÍ A þjálfari 2012
 • Ótal námskeið á sviði íþrótta, heilsu og þjálfunar.