Þetta er fyrsti og mjög líklega einn af sárafáum pistlum um mataræði sem ég mun birta á þessari síðu. Ekki það að matur og matarvenjur skipti ekki miklu máli fyrir íþróttamenn heldur því það virðist vera nóg af fólki að skrifa og tjá sig um þau mál. Reyndar sýnist mér æði oft mikið af því fólki hvorki sjá tréið sjálft né hvað þá skóginn fyrir laufblaðinu sem þau stara á í gegnum stækkunargler. Hlutirnir eru ekki eins flóknir og margir vilja láta. Ég fæ reglulega spurningar um mataræði og fæðubótarefni. Mikið af þeim spurningum ætla ég beint og óbeint að reyna að svara hér í þessu næringarfræðilega æviágripi mínu og útlistun á því sem ég tel mikilvægustu atriðin sem snúa að fæðu og tengdri hegðun.

Mín vegferð

Einhver uppnefndi mig “kaloríukónginn” í 8. bekk og útskýrði stærðfræðifærni mína með því að ég væri alltaf að reikna saman kaloríurnar í matnum sem ég borðaði – eitthvað sem ég eflaust pikkaði upp af móður minni og lestri hennar á Shape magazine á 9. áratugnum. Ég man að ég fór í fyrsta nammibindindið mitt þegar ég var 12 ára og minnir að ég hafi ekki borðað neitt sem ég skilgreindi sem nammi í 2 mánuði. Ég hætti að borða kjöt um sl. aldamót til að sneiða hjá skyndibita og hef haldið mig við það síðan – ein af mínum betri ákvörðunum í lífinu.

Árið 2006 tók ég út mjólk og aðrar dýraafurðir, þó ég hafi ekki verið alveg heilagur í því sl. 1-2 ár, og á árunum 2002-2005 stundaði ég sólarhringslangar þurrföstur ca. 1-2 sunnudag í mánuði með áhugaverðum árangri. Allur sykur fékk að fjúka eitt árið og annað árið var nánast aðeins borðuð lífræn fæða (fyrir hrun að sjálfsögðu). Árið 2005 var ég spurður í einhverju viðtali hver væri uppáhaldsbókin mín og ég svaraði því að ég læsi ekkert nema skólabækur og bækur um næringarfræði, sem átti við mig í mörg ár.

Einhverjir muna eflaust eftir Ronnie Coleman sturta daglega í sig ca. 50 töflum í einhverju æfingamyndbandinu sínu. Ronnie er með stóra vöðva svo það þýðir að ég verð líka að ….

Ég keypti fyrstu fæðubótarefnin mín árið 1998 og má segja að ég hafi síðan þá skoðað allt litrófið þar. Af þeim örugglega yfir hundrað “dúnkum” af fæðubótarefnum sem ég hef keypt í gegnum tíðina, þá fékk ég einn til Svíþjóðar í gegnum þýska netverslun sem ég er 99% viss um að hafi innihaldið ólögleg efni – enda henti ég honum áður en hann kláraðist. Fyrir ca. áratug las ég um einhvern bodybuilder-bjána sem vaknaði á næturnar til að taka inn kreatín og prótein til þess að koma í veg fyrir vövaniðurbrot, og auðvitað þurfti ég að prófa þá vitleysu. Ég hef oft farið út að endimörkum þess vitræna þegar kemur að næringu og neyslu hennar en einnig gert tilraunir sem hafa skilað mér verðmætum upplýsingum og haft áhrif á mínar matarvenjur.

Í stuttu máli, það sem ég er að reyna að segja, er að ég hef pælt í þessu. Mikið. Ef ég taldi eitthvað vera þess virði að skoða vel þá gerði ég það og gaf því langan tíma, yfirleitt í árum talið, til að upplifa bæði skammtíma og langtímaáhrifin. Þegar það kom að fæðubótarefnunum þá fór ég smátt og smátt að viðurkenna fyrir sjálfum mér að þau voru ekki að fara að skera úr um það hvort ég myndi vera í toppformi inni á vellinum eða ekki. Þá, í einhver ár til viðbótar, taldi ég mér trú um það að ég væri “að kaupa mér hugarástand” með því að eyða peningnum mínum í efni sem “ættu” að hjálpa mér sem íþróttamanni, og á meðan hefði ég þá alla vega ekki samviskuna í að borða skyndibita eða annað rusl. Að lokum lærði ég að greina kjarnann frá hisminu.

Niðurstaðan eftir allt

Eftir þetta rúmlega 2 áratuga ferðalag í gegnum alls kyns æfingar með mat og matarvenjur þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þetta séu mikilvægustu atriðin að fylgja til þess að halda heilsu, halda sér í kjörþyngd, og ná árangri sem íþróttamaður:

rocks-in-a-jar-portfolio-390x238

Mikilvægt! Ráðleggingarnar hér að neðan eru stóru steinarnir – fylltu krukkuna þína fyrst með þeim áður en þú ferð að velta því fyrir þér hvaða sandi þú ættir að byrja á að setja ofan í krukkuna.

1. Eigðu í heilbrigðu sambandi við mat.

Hvað þýðir það? Jú, að nærast ætti að vera eðlislæg athöfn. Átakalaus og náttúruleg hegðun.  Það er að mínu mati ekki heilbrigt samband við mat þegar hver einasta máltíð og undirbúningurinn fyrir hana er hluti af einhverju ógnarjafnvægi, þar sem allar máltíðir í ákveðna daga eru ofurheilsusamlegar bara til þess að geta á “nammideginum” borðað eins óheilsusamlega og mann lystir. Algerlega óháð því hvað er heilsusamleg eða ekki, þá er það andlega ástandið sem við setjum okkur í við hverja máltíð þegar við verðum ýmist að “halda í okkur” / “vera í átaki” / “eiga inni fyrir sukkinu” eða þá “sleppa sér alveg og borða það allt sem maður vill”.

2. Hafðu hemil á streituvöldum í lífinu þínu og fasaðu út helling af streitu með því að fá hraustlega líkamlega útrás nokkrum sinnum í hverri viku.

Næstmikilvægasti punkturinn snýr líkt og sá mikilvægasti ekki að matnum sjálfum. Minni streita og líkamleg útrás er ég sannfærður um að hafi ósjálfrátt mikil og jákvæð áhrif á matarvenjurnar, matarvalið og líðanina þegar við nærumst. Það þekkja það margir að reglubundin hraustleg hreyfing kemur af stað boltanum og sjálfkrafa verður matarvalið heilbrigðara og tilfinningaátið sjaldgæfara. Við sjáum alla vega ekkert svakalega mikið af vel feitu fólki sem er engu að síður mjög vel þjálfað (já, það er hægt) .

3. Vertu í kringum “kaloríu-parið” þitt og gerðu það helst með því að hlusta á líkama þinn.

Það að halda matardagbækur er vissulega gott og gilt þegar skóla á til einstakling sem hefur tapað hluta af eða allri tilfinningunni fyrir því hversu stóra og marga matarskammta líkami hans þarf á að halda. En almennt er æskilegast að þróa og styrkja innri stjórnina og  mettunartilfinninguna. Jújú, það eru aðrir þættir sem hafa áhrif (hormónastarfsemi, gen, o.fl.) en gamla góða “inn” vs. “út” hitaeiningajafnvægið er það lang veigamesta.

4. Hugaðu að því að velja fjölbreytta næringarríka fæðu fram yfir einhæfa næringarsnauða fæðu.

Ætti að segja sig sjálft fyrir flestum. Reyndu að hafa matardiskinn litríkan og prófaðu reglulega uppskriftir með fæðu sem þú neytir sjaldan.

5. Hugaðu að tímasetningum matartímanna.

Einfalt ráð, borðaðu reglubundið og með tilliti til þeirra átaka sem þú útsetur líkami þinn fyrir. Borðaðu stóran morgunmat.

6. Lifðu áfengis- og vímuefnalausu lífi.

Umræðan um þessi mál hafa komið í bylgjum en upp á síðkastið hefur mér þótt fara lítið fyrir þessari umræðu. Þetta er algjör no-brainer í mínum kolli; Ef þú ert íþróttamaður sem ætlar þér að ná eins langt og mögulegt er þá lifir þú lífinu án eiturefna sem í besta falli brjóta þig niður og minnka sjálfstjórnina,  í versta falli eyðileggja líf þitt.

Baksýnisspegillinn

Ef hinn 22 ára ég hefði hitt sjálfan mig í dag, þá hefði mér þótt þessar ráðleggingar að ofan óttalegt gamaldags raus og ég afgreitt sjálfan mig sem bjálfa sem fylgist ekkert með nýjustu fræðunum, þróun nýjustu fæðubótarefnanna og hvert stefnir í framtíðinni. En ég sé það í dag að þetta er það sem sérhver ætti að byrja á að gera ef hann vill ná árangri. Mér dettur ekki í hug að að gengisfella þennan pistil með því að minnast á eitthvað “X-vítamín/efni sem þú verður að borða x-mínútum fyrir átök svo að … blah blah”. Sjáðu skóginn fyrst!

Þessi vitleysingur!