Þetta er “pólitískt rangur “pistill!

Stundum er nauðsynlegt að synda á móti straumnum!

Tilefnið að þessum hugrenningum var pistill Kolbeins Tuma Daðasonar sem bar heitið “Manndóminum fórnað fyrir rautt spjald“. Þar segir m.a. að “[þ]að færist í vöxt og sér ekki fyrir endann á því hve lágt knattspyrnumenn leggjast til þess að bæta stöðu síns liðs”, en þar vísar hann til þess að einum Frammara hafi tekist að ýkja afleiðingar þess þegar einn Keflvíkingur ýtti við honum svo að sá síðarnefndi fékk rauða spjaldið í knattspyrnuleik nýverið.

Svindlarar, leikararskapur, aumingjar og álíka upphrópanir eru oft notaðar þegar svona atvik koma upp. Ég ætla að voga mér að taka annan vinkil á þetta og fullyrða að þessi hegðun sé bæði mannskepnunni fullkomlega eðlileg og einnig beinlínis það sem leikurinn snýst um; Að blekkja og að fá sem mest fyrir minnst.

Suarez – Svindlari eða “snillingur”?

Það sem ég í fyrsta lagi get ekki fengið til þess að koma heim og saman er það hvers vegna í leik eins og knattspyrnu, og flestum öðrum boltaíþróttum ef því er að skipta, því er fagnað þegar leikmanni tekst að blekkja andstæðinginn en þegar honum tekst að blekkja dómarann þá hefur hann “fórnað manndómnum”. Við fögnum gabbhreyfingum sóknarmanns sem fær varnarmanninn til að hlaupa í ranga átt! Við dáumst af “no-look” sendingum og öruggustu vítaspyrnurnar eru þegar spyrnumanninum tekst að senda markvörðinn í rangt horn með villandi líkamstjáningu og blekkjandi augngotum. Jújú, reglurnar segja að þetta megi ekki en blekkingar eru einfaldlega hluti af leiknum. Þeir sem reyna líka að blekkja dómarann eru líklega meðvitaðir að það má ekki samkvæmt reglunum og að þeir geta átt von á refsingu ef dómarinn sér í gegnum blekkinguna. Þeir sem kjósa að reyna að beita dómaranum blekkingum taka áhættu, leggja undir og geta annað hvort “grætt helling” eða “tapað stórt”. Ekkert að því!

Ronaldinho – Snillingur eða “svindlari”?

Önnur, mögulega furðulegri skýring á þessari umdeildu hegðun íþróttamanna, er sú að þetta er í okkar dýpsta eðli og nákvæmlega í takti við það sem taugakerfi okkar er að gera í öllum tilvikum öllum stundum; Að reyna að bæta sína stöðu með minnsta mögulega tilkostnaði og leysa verkefnin með öllum mögulegum meðulum.

Þegar við t.d. æfum hlaup þá verðum við betri í því vegna þess að líkaminn leitar allra leiða til að verða hagkvæmari í því sem allra fyrst. Framfarirnar koma þegar lungu, hjarta- og blóðrásarkerfið auka starfsgetu sínu en einnig vegna þess að taugakerfið finnur leiðir til þess að gera hreyfinguna skilvirkari og þannig eyða minni orku við hlaupin (meira fyrir minna!). Að sama skapi verða ýmsir efnafræðilegir ferlar í líkamanum skilvirkari svo við nýtum orkuefnin betur – bókstaflega meira fyrir minna.

Annað “svindl” hjá taugakerfinu eru svokallaðar meðhreyfingar (trick movements) sem eru leiðir sem líkaminn finnur til þess að bæta upp skerta hreyfigetu á einum stað með aukinni hreyfingu á öðrum stað. Þetta gerir taugakerfið jafnvel þótt það sé skaðlegt líkamanum til lengri tíma, einfaldlega vegna þess að það leysir vandamálið hratt og örugglega. Dæmi um þetta eru körfuboltamenn sem sækja mýktina í sitt skot með því að leyfa hnjánum að falla saman, yfirleitt vegna þess að stífleiki í ökklum leyfir ekki mýktina og dempunina sem þarf til.

Basketball valgus

Dæmi um valgus í körfuboltaskoti. Hreyfingin kemur þar sem minnsta mögulega mótstaðan er.

Á svipaðan hátt “svindla” spretthlauparar til sín lengri réttu á mjöðminni með því að sækja í offettu á mjóbakinu þar sem það lengir tímann sem hlauparinn spyrnir í jörðina og hefur þar með lengri tíma til að mynda meiri kraft, sérstaklega þegar tekið er af stað. Þessi almennt séð óæskilega meðhreyfing hjálpar spretthlaupurum í því verkefni sem þeir standa frammi fyrir.

Usain Bolt er einn af mörgum spretthlaupurum sem eru fastir í offettu á mjóbaki. 

Við erum einfaldlega alltaf að leita að stystu leiðinni að settu marki. Það er í okkar eðli og hjálpar okkur í að finna bestu lausnirnar á þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir – jafnvel þó það verði til þess að við stígum yfir einhverjar pólitískt eða siðferðislegar “réttar” línur. Taugakerfið þekkir ekki þessar línur og undirmeðvitundin er fljót að gleyma þeim.