Byrjum á því versta

Ekkert er verra en að byrjað daginn á því að svíkja samninginn sem þú gerðir við sjálfan þig kvöldinu áður um það að þú ætlaðir að vakna á einhverjum tilteknum tíma. Algeng afsökun frá ,,snooze-urum” er að það sé svo þægilegt að slefa í móki milli svefns og vöku og þess vegna stilli þeir jafnvel klukkuna fyrr til þess að snooza. Þá er mun betra að ná lengri ótrufluðum svefni og hætta ekki á það að sofa yfir sig. Verst af öllu slæmu er þó að svíkja sjálfan sig. 

Það besta

Á hverjum einasta degi blasir við okkur tækifæri til þess að verða betri. Þegar við vöknum eftir góðan nætursvefn er hugurinn ómengaður og tær eins og ógárað vatnsyfirborð. Á þeirri stundu getum við streymt uppbyggilegum straumum ofan í undirmeðvitundina og haft áhrif á hegðun okkar þann daginn.

Sérhver dagur er tækifæri. Nýttu það!

Svona nýtir þú best mikilvægustu mínútu hvers dags. Byrjaðu á því að rísa á fætur og búa um rúmið þitt! Að þeirri 10-20 sekúndna athöfn lokinni horfðu á frágengið rúmið og segðu við sjálfa(n) þig með sannfæringu:

,,Ég klára hluti”

Og fylgdu þeirri setningu eftir með:

,,Í dag verður góður dagur”

… með sterkri sannfæringu. Sjálfur kreppi ég ávallt hnefann á meðan ég hugsa þessa setningu, píri augun og glaðbeitt brosi létt. Með því að byrja hvern dag á því að leysa fyrsta verkefnið sem blasir við þér gerir þú það líklegra að endurtaka þá hegðun að klára þau verkefni sem bíða þín þennan dag sem og aðra. Að búa um rúmið sitt er táknrænt mikilvæg athöfn.

Í upphafi skal upphafinu sinnt.