Flemming Serritslev var m.a. aðstoðarþjálfari sigurliðs Dana á EM 1992. Kallinn sýndi góða takta í verklega hlutanum á ráðstefnunni.

Ég skellti mér á Bikarúrslitaráðstefnuna KSÍ um daginn og hlustaði á danann Flemming Serritslev tala um mat á hæfni knattspyrnumanna auk umræðu um bikarleikinn sem fór fram seinna um daginn og reyndist algjör reyfari. Það er alltaf hollt að sækja námskeið og ráðstefnur því jafnvel þó pælingar fyrirlesaranna eða annarra séu kunnuglegar þá verða þær yfirleitt að minnsta kosti kveikja að nýjum pælingum hjá manni sjálfum. Það örvar heilabúið að heyra aðra deila sinni reynslu og vitneskju. Ég hef heyrt ýmsa þjálfara tala um að maður eigi að taka frá 5 og upp í 10% af innkomu sinni sem þjálfari og fjárfesta þeirri upphæð í áframhaldandi menntun, bækur, diska og fleira í þeim dúr. Ég hef ekki reiknað út þetta hlutfall hjá mér en held að það sé hverjum þjálfara, en sér í lagi þjálfurum í fullu starfi, hollt að reikna þetta út því stöðunun er dauði – ekki satt!?

Á þessari ráðstefnu spratt upp hjá mér vangavelta sem var algerlega óháð því sem Flemming kallinn var að tala um: Hvaða mælikvarða höfum við á árangur í þjálfun fullorðinna í hópíþróttum? Sem styrktarþjálfari þá met ég árangur þjálfunarinnar með líkamlegum frammistöðumælingum, skráningum á meiðslum og mætingum iðkendanna til að sjá hvort jákvæð eða neikvæð trend eru í gangi. Ef liðið mitt bætti lóðrétta stökkkraftinn sinn í fyrra um 10% yfir ákveðið tímabil en hópurinn í ár bætti hann um 20% þá var ég að gera eitthvað betur það árið. Mjög einfalt og árangurinn mælanlegur. En hvernig er það með frammistöðu liða í deildakeppni, hvaða mælikvarða höfum við eða ættum að hafa þar?

 Við þekkjum öll frasa eins og “við ætluðum að gera betur en í fyrra og þá lentum við í 4. sæti”. Með öðrum orðum: Viðkomandi ætlar að ná 3. sæti eða hærra. En er virkilega hægt að bera saman fjölda stiga eða sæti í deild milli ára og nota það sem mælikvarða á gæði þjálfunar eða framfarir leikmanna?

Stöðutafla úrvalsdeild 2013

“Taflan lýgur ekki” …. eða hvað?

Blessunarlega hefur sl. ár átt sér stað mjög heilbrigð umræða um það að úrslit, sigrar og titlar séu ekki eini, og síst sá marktækasti, mælikvarði á árangur í þjálfun barna og unglinga. Þessi umræða hefur hins vegar ekki náð að teygja anga sína upp í meistaraflokkana. Menn eru jú dæmdir af úrslitunum í “alvörunni”, er það ekki? Hvað hefur maður ekki heyrt þjálfara oft segja eftir ömurlega frammistöðu og mjög tæpan sigur;

Eftir tímabilið spyr enginn að því hvernig leikurinn spilaðist, bara hver úrslitin voru.

Það er ákveðið vandamál fólgið í því að notast eingöngu við þennan mælikvarða fyrir meistaraflokksþjálfara, og sér í lagi þá sem vilja virkilega ná hámarksárangri. Snýst þetta bara um að vera betri en andstæðingarnir eða snýst þetta um að ná þeim framförum sem leikmenn og lið geta mögulega náð? Það sem ég held að slái ryki í augu hópíþróttaþjálfara er sú staðreynd að það endar alltaf eitt lið á toppnum! Spurning er hins vegar hvort þeir hafi verið bestir eða hvort þeir hafi bara verið “minna lélegir” en hinir. Hvers vegna ætli flestir meistaraflokksþjálfarar sætti sig að lokum við það eitt að vera minna lélegur en andstæðingurinn? Þjálfarar í t.d. hástökki hafa mun beinskeyttari mælikvarða á það hvort þeirra þjálfun skili árangri; Ef allir hástökkvarar landsins myndu allt í einu stökkva að meðaltali 20 cm lægra en þeir og aðrir hefðu gert árin á undan, þá léki enginn vafi á því að að gæðum þjálfunarinnar hefði hrakað.

Oft getur verið stutt á milli hláturs og gráturs í sérstaklega boltaíþróttunum. Eitt skot “stöngin inn” í einhverjum leiknum og þá hefðiru endað með að vinna deildina en ef það var stöngin út þá sastu eftir með sárt ennið. Allir kannast við þessar vangaveltur. En það versta að svona krítísk smáatriði geta stýrt því hvort menn líti í baksýnisspegilinn og finni upp á fullt af eftiráútskýringum um það hvers vegna liðið sat eftir með sárt ennið:

Stutt á milli og það litar sýn manna á gæði þjálfunarinnar.

Stöngin út => Mér fannst leikmennirnir virka þungir á sér í fullt af leikjum.

Stöngin út => Hvað var þjálfarinn að hugsa með því að spila þetta kerfi og þessum leikmanni í þessari stöðu! 

Stöngin út => Við æfðum allt of lítið, og jólafríið var fáránlega langt.

Stöngin inn => Þetta var frábært tímabil! Við lentum í ströggli en sýndum gríðarlegan karakter og kláruðum dæmið.

Svona frasar og þessi villigatnaumræða verður til vegna þess að menn eru að notast við ranga mælikvarða á árangur í þjálfun. Það sem ég held að bæði ýti oft undir svona umræðu, og geri það að verkum að stigataflan verður eini mælikvarðanum, er að forráðamenn íþróttafélaga eru í mörgum tilfellum hvorki fyrrverandi íþróttamenn né þjálfarar og hafa oft lítinn skilning á öðru en úrslitunum. Alltént er það staðreynd að í grasrótarstarfi eins og hjá íþróttafélögum á Íslandi í dag er aðhald og eftirlit með þjálfurum merkilega lítið og frelsi þeirra í flestum tilvikum ótrúlega mikið. Þess vegna eru fáir sem öðlast skilning á þeirri vinnu sem fer fram á æfingusvæðinu.

Ég trúi því að fagleg umræða þjálfara á opinberum vettvangi, um aðra hluti en úrslitin sjálf, geti orðið til þess að aðrir átti sig á því að það býr fjölmargt margslungið og flókið að baki því að þróa leikmenn og búa til gott lið. Ef íslenskir hópíþróttaþjálfarar myndu fella niður “póker-fésið” og ræða ófeimnir sínar þjálfunaraðferðir þá held ég að það myndi til lengri tíma gera starfsumhverfi þeirra öruggara þar sem það jyki almennan skilning á þjálffræði og vinnubrögð þjálfara kæmust meira í kastljósið, en ekki bara úrslitin sem lið þeirra skila.