weight-lifting1Þetta er spurning sem ég hef heyrt oft í gegnum tíðina. Núna síðast fékk ég þessa spurningu um nýliðna helgi þegar ég var að kenna á KSÍ IV knattspyrnuþjálfaranámskeiðinu. Í staðinn fyrir að reyna að svara þessari spurningu stuttlega, sem vekur yfirleitt upp margfalt fleiri spurningar sem þarf í kjölfarið einnig að svara, þá ákvað ég frekar að deila með umheiminum heimildaritgerð sem ég skrifaði vorið 2009, þegar ég var í ÍAK Einkaþjálfaranámi Keilis. Í ritgerðinni leitaðist ég einmitt eftir því að svara þessari spurningu, því ég var sjálfur alls ekki viss um hvað væri rétt eða rangt.

Getur styrktarþjálfun rofið vaxtarlínur?

Gerir styrktarþjálfun börn og unglinga “kubbsleg” og minnkar hreyfigetu þeirra?

Svörin við slíkum spurningum getur þú fundið í ritgerðinni, en niðurstöðurnar sem ég komst að voru talsvert meira afgerandi ég en hafði reiknað með áður en ég sökkti mér í efnið.

 

Bubbi byggir ... upp massa.

Smelltu á forsíðuna til að lesa ritgerðina.

Ég hraðlas yfir ritgerðina rétt í þessu og finnst hún alveg nógu góð ennþá til að leyfa öðrum að lesa. Þó einhverjar stafsetningarvillur og nokkur smáatriði skeri í augu mín þá get ég sagt að þessi ritgerðarvinna mótaði algjörlega minn útgangspunkt í styrktarþjálfun barna- og unglinga og í grófum dráttum er ég ennþá í dag að vinna út frá því sem ég komst að í tengslum við þessi skrif.
Ég hugsa að þessi ritgerð sé fínn upphafsstaður fyrir íþróttaþjálfara unglinga og styrktarþjálfara/einkaþjálfara sem þjálfa yngri aldurshópana. Þú munt ekki finna neinar æfingar eða beinar ráðleggingar um hvernig eigi að nákvæmlega að þjálfa börn og unglinga en hins vegar færðu einhvern ramma í kringum það sem þarf að hafa í huga þegar ætlunin er að þjálfa upp líkamlega þáttinn hjá börnum og unglingum.