Sem styrktarþjálfari er mikilvægt að vera í góðu sambandi við íþróttaþjálfarana sem maður vinnur með. Það hjálpar að vera almennt inni í málunum hjá flokknum og vita hluti eins og hvernig leiktímabilinu er háttað, þekkja leikmennina aðeins og vita hvernig íþróttamenn þeir eru inni á vellinum, hverjir líkamlegir veikleikar og styrkleikar hópsins eru almennt, osfrv. Ef um meistaraflokk er að ræða eru þetta allt lykilatriði. Ég kann alltaf að meta það þegar íþróttaþjálfararir miðla upplýsingum og tel það merki um metnað og fagleg vinnubrögð hjá viðkomandi íþróttaþjálfara.

Stundum fær maður hins vegar upplýsingar frá íþróttaþjálfurunum sem opinbera misskilning þeirra á því hvað styrktarþjálfun getur gert og hvað ekki. Í gegnum tíðina hef ég oftar en einu sinni átt samræður við íþróttaþjálfara sem fara um það bil einhvern veginn svona fram:

Íþróttaþjálfarinn: Heyrðu, við erum að fara að keppa mikilvægan leik þarnæstu helgi.

Ég: Ok.

Íþróttaþjálfarinn: „Svo ég var að pæla hvort við gætum breytt aðeins prógramminu fram að því, tekið smá hopp og sprengikraft og reynt að hafa þá ferska og kraftmikla um þarnæstu helgi.“

Ég: „Uhh, ok“

Það sem ég hugsa hins vegar er hvernig þessir þjálfarar myndu bregðast við ef til þeirra kæmi, við skulum segja stjórnarmaður eða foreldri, og spurðu þá hvort að þeir gætu ekki gert einhverjar spes sendingaæfingar í vikunni svo þeir myndu ekki hvorki senda neina feilsendingu né gera tæknifeila í næsta leik. Það væri auðvitað algjörlega út í hött! Að þjálfa upp líkamlega eiginleika er hins vegar alveg eins og að þjálfa upp tæknilega færni; Þú eykur ekkert sprengikrafti né sendingarnákvæmni með æfingum á einhverjum dögum eða örfáum vikum. Það eina sem gæti til skemmri tíma haft jákvæð áhrif á svona eiginleika væri helst hvíld og hugræn þjálfun.

Af svipuðum toga er spurningin sem ég hlýt að fá að meðaltali í hverjum mánuði: „Ertu ekki með einhverjar góðar æfingar sem auka sprengikraft?“ Ég reyni yfirleitt að gefa einhver gagnleg stutt svör en langar helst að halda langa tölu um langtímamótun íþróttamanns og það hvernig líkamlegir eiginleikar þróast á árum en ekki mánuðum og síst á einhverjum vikum. Það er augljóst að það vilja allir meiri sprengikraft, hraða og stökkkraft. Allir leikmenn og allir þjálfarar fyrir sína leikmenn. Ég hef til dæmis aldrei heyrt nokkurn íþróttaþjálfara segja við mig eitthvað í líkingu við: „Kristján, leikmennirnir mínir eru það svakalega hraðir og kraftmiklir að ég held að við getum bara einbeitt okkur að liðleikaþjálfun og meiðslaforvörnum næstu vikurnar“.

Sjaldgæft og alltaf aðdáunarvert þegar menn ná að umbreyta veikleikum sínum í styrkleika.

En það eru færri sem átta sig almennilega á því að það þarft að byggja kraft og hraða ofan á traustum líkamlegum grunni sem samanstendur m.a. af styrk, vöðvajafnvægi, hreyfanleika, og samhæfingu. Enn færri hafa svo þolinmæðina í að þjálfa upp þessi atriði og enda með því, meðvitað eða ómeðvitað, að freista þess að fleyta fljótt rjómann af kraft- og hraðaþjálfun. Líklega er eitt mest krefjandi þjálfunarverkefnið að gera hægan og kraftlítinn íþróttamann að hröðum og kraftmiklum. Það gerist ekki á skömmum tíma, ef það yfir höfuð er hægt, og þá þarf að taka inn alla þjálfunarþætti.

Kraftur og hraði eru toppurinn á píramídanum – þeir eiginleikar verða ekki þjálfaðir upp án þess að undirstöðurnar séu traustar.