Fyrir ekki svo löngu fékk ég óvænta og kærkomna hringingu frá Sigurður Ragnari, fræðslustjóra KSÍ, sem sagði mér að hann vildi bjóða mér á UEFA ráðstefnu sem bar heitið Fitness in Football og átti að fara fram í Oslo þann 11.-14. mars. Á ráðstefnunni var boðið tveimur einstaklingum frá knattspyrnusamböndum 20 Evrópuríkja sem komu að menntunarmálum og “fitness”-þjálfun hjá hverju sambandi. Ég þáði boðið með þökkum. Upphaflega átti Janus Guðlaugsson að stýra för en hann neyddist til að afboða. Dagur Dagbjarts, starfsmaður KSÍ hljóp þá í skarðið en kastaði einnig inn hvíta handklæðinu korteri fyrir brottför, svo það kom í minn hlut að fara einn á þessa ráðstefnu fyrir hönd KSÍ og Íslands.

Forsagan að þessari ráðstefnu er  sú að UEFA hefur um skeið íhugað að búa til menntagráðu á sviði ástandsþjálfunar knattspyrnumanna, líkt og hefur verið gert með svokölluð UEFA-A og B licence (knattspyrnuþjálfara), markmannsþjálfaragráðu, barna- og unglingaþjálfaragráðu osfrv. Eftir að hafa rætt við forsvarsmenn knattspyrnusambandanna hefur UEFA ákveðið að bíða með að útbúa slíka gráðu, þar sem í ljós kom að mjög svo ólíkar hugmyndir þrífast innan hvers og eins lands um það hvernig eigi að undirbúa líkama knattspyrnumanna sem best fyrir sjálfan leikinn.  Í staðinn var ákveðið að setja upp þessa “frumherja-ráðstefnu” (pilot seminar) þar sem fagmenn á þessu sviði frá ólíkum löndum gætu hist og rætt ólíkar nálganir.

Að neðan er samantekt mín um málefni ráðstefnunnar sem ég skilaði til KSÍ þar sem ég tek saman það helsta og áhugaverðasta sem fram kom í máli forsögumanna ráðstefnunnar sem og eigin vangaveltna og þess áhugaverða sem fór á milli mín og annarra í kaffi- og matarpásum, sem oft reynist ekki síður gagnlegt þegar upp er staðið.

Dagur 1 – 11. mars

Ég kannaðist helvíti mikið við gaurinn sem stjórnaði ráðstefnunni. Með hjálp google mundi ég að ég átti Italy ’90 fótboltamynd af kappanum. Múllettinn hefur þó eitthvað styst með árunum

Fólkið skilaði sér á staðinn þennan dag og kl. 17 var ráðstefnan sett af Ioan Lupescu sem kynnti sig sem UEFA Chief Technical Officer – hnausþykkur titill! Hann ræddi stuttlega um mikilvægi þess að fitness-þjálfun fótboltamanna tæki mið af íþróttinni sjálfri og að markmiðið með ráðstefnunni væri að útbúa ramma utan um umræðuna kringum slíka þjálfun. Í fullri hreinskilni þá iðaði ég í skinninu á þessum tímapunkti að fá að tala við alla þessa aðila sem hömruðu í sífellu á “football specific fitness training” og öðrum slíkum frösum, vegna þess að ég sjálfur trúi ég mjög á það að undirbúa hvern og einn íþróttamann á almennan hátt og síðan ofan á það smella efsta hlutanum af píramídanum sem er íþróttasérhæfði hlutinn.  Snemmbúin íþróttasérhæfð og einhæf þjálfun er að mínu viti ein aðalorsökin fyrir því að börn og unglingar þurfa að hætta í fótbolta, þeas. þegar orökin eru af líkamlegum toga. Á sl. árum hef ég nokkru sinnum reynt kerfisbundið að sækja meir af upplýsingum til Evrópu um líkamlega þjálfun, þegar mér hefur þótt Ameríski “bias-inn” minn orðinn helst til sterkur, en sama hvað ég kaupi af bókum og efni frá Evrópskum þjálfurum þá verð ég yfirleitt fyrir vonbrigðum með það sem snýr að þessum hluta þjálfunarinnar. Þess vegna, þegar það fyrsta sem ég heyri á ráðstefnunni er “football specific this …. football specific that” þá fór ég strax að velta fyrir mér hvort þessir gaurar pældu ekkert í meiðslaforvörnum, LTAD (long term athletic develoopment) o.fl. í þeim dúr.

Eini raunverulegi fyrirlestur þessa kvölds var frá hinum holllenska Raymond Verheijen og bar fyrsti hluti hans yfirskriftina: The Football Specific philosophy. Raymond hefur unnið með fullt af stórum klúbbum til styttri tíma, elt Guus Hiddink sem landsliðsþjálfara hingað og þangað og nú upp á síðkastið aðstoðað Gary Speed með Velska landsliðið og er um þessar mundir aðstoðarþjálfari Armenska landsliðsins. Raymond kom til Íslands árið 2011 að mig minnir en ég missti því miður af fyrirlestrinum hans þar sem bar nafnið “Football is fitness – Fitness is football”. Verheijen var mjög ögrandi í sinni framsögu. Augljóslega kýrskýr náungi og allt að því full meðvitaður um það. Á köflum draup af honum hrokinn en fljótlega sá ég að það var oft af yfirlögðu ráði gert.

Jebb, ég er maðurinn (Raymond Verheijen).

Í mjög stuttu máli talaði Verheijen fyrir því að þrekþjálfun knattspyrnumanna væri sem hluti af heildstæðri þjálfun knattspyrnumanna en ekki sem einangruð, aðskilin þjálfun. Þá lagði hann mikla áherslu á það að knattspyrnu-fólk, sem hefði reynslu af og skildi leikinn, sæi um þrekþjálfun knattspyrnumanna en ekki fólk úr öðrum íþróttum eða heilsugeirum sem hefðu alltaf tilhneigingu til þess að koma að sínum þjálfunarnálgunum sem það hefur þróað í gegnum þjálfun á hópum fólks sem eiga fátt sameiginlegt með knattspyrnumönnum og kröfunum sem sú íþrótt gerir. Ver

Þetta þekkjum við vel á Íslandi. Í gegnum tíðina og enn í dag hafa verið fengnir óskyldir aðilar, svo sem frjálsíþróttafólk, boot-camparar, sundþjálfarar, crossfittarar, yoga-gellur og þar fram eftir götunum, til þess að “sjá um þennan þátt”. Ég er mikill talsmaður þess að stunda fjölbreytta þjálfun á meðan “off-seasoni” stendur, bæði með tilliti til meiðslafyrirbyggingu og andlegra þátta, en að láta þjálfara úr algerlega óskyldri íþrótt (non-football experts eins og Verheijen kallar það) sjá alfarið um líkamlega hluta knattspyrnuþjálfarans er einfaldlega óábyrgt af hendi aðalþjálfara.

Sú nálgun sem Verheijen talaði fyrir var mjög einföld og lógísk; Knattspyrnuþjálfarar eiga að leita upplýsinga, hjá fræðimönnum, styrktarþjálfurum og jafnvel þjálfurum úr öðrum greinum þar sem unnið er með ákveðna þætti sem nýtast knattspyrnumanninum, og aðlaga síðan þessar upplýsingar og nálganir að knattspyrnuleiknum sjálfum og þeim kröfum sem hann gerir til leikmanna. Þrekþjálfunin getur áfram verið í höndunum á sérstökum þrekþjálfara, en best sé að hann hafi knattspyrnubakgrunn og vinni eftir áherslum og óskum aðalþjálfarans. Einn að meginpunktum Verheijens snéri að tungumálinu og því hvernig skipta ætti út “fræðimannahugtökum” fyrir orð og hugtök sem hafa praktíska meiningu fyrir knattspyrnufólk. Þannig væri betra að tala um “pressugetu” (getuna til þess að halda uppi pressu á andstæðinginn í gegnum allan leikinn) í stað þess að tala um loftháð þol – “create a philosophical standpoint before creating the terminology”, eins og hann orðaði það sjálfur. Úlfar Hinriksson skrifaði mjög ítarlega samantekt á seinni hluta erindisins hjá Verheijen sem fjallaði um lotuskipulag knattspyrnuþjálfunar, sem var sami fyrirlestur og hann hélt árið 2012 á ráðstefnu sem Úlfar sótti til Amsterdam. Skýrslu Úlfars finnur þú hér:

http://www.ksi.is/media/fraedsla/Periodisation-skyrsla—Ulfar-Hinriksson.pdf

Dagur 2

Fyrstur á stokk var Paul Balsom sem hefur unnið mjög lengi með sænska landsliðinu og fjölmörgum toppklúbbum í Englandi. Balsom var fyrstur af mörgum sem ræddi um leikinn á hæsta level eins og hann blasir við okkur þegar skoðuð er ýmis nákvæm tölfræði og mælingar á því sem á sér stað inni á vellinum þegar kemur að hlaupum, stefnubreytingum, tegund hreyfinga, samstuða, osfrv.; M.ö.o. þeirri vinnu sem þeir bestu geta skilað inni á vellinum. Ég held að ég geti fullyrt það með vissu að engin íþróttagrein hefur verið greind á jafn ítarlegan hátt og knattspyrna á sl. árum og Balsom m.a. sýndi fram á það að útgáfa fræðigreina sem taka fyrir þessi atriði hefur stöðugt aukist ár frá ári sl. áratug. Balsom hafði lagst í talsverða vinnu fyrir ráðstefnuna við að taka saman og flokka þær birtu fræðigreinar um knattspyrnu sem hafa komið út sl. 10 ár, sem töldu vel yfir 800 talsins. Margt áhugavert kom fram  í þeirri samantekt hans, svo sem:

 • Yfirgnæfandi hluti rannsókna er framkvæmdur á fullorðnum karlmönnum. Aðeins lítill hluti fjallaði um fullorðna kvenmenn eða karlkyns unglinga og Balsom fann aðeins eina rannsókn sem fjallaði eingöngu um unglingsstúlkur.
 • Bretar og Ástralir eru manna duglegastir að framkvæma rannsóknir á knattspyrnuleiknum.
 • Mikið ósamræmi í hugtakanotkun meðal rannsakenda. [Endurspeglar kannski enn frekar nauðsyn þess að þróa betur og festa í sessi alþjóðlegt “fótbolta-fitness-tungumál”].
 • Rannsóknir sem lutu að hreyfingum og hlaupum knattspyrnumanna sýndu að leikmenn, jafnvel þeir sem leika í sömu leikstöðum og á hæsta level, hreyfa sig á mjög ólíkan hátt inni á vellinum. [Það er sem sagt hægt að leika leikinn á mjög ólíkan hátt og engin ein “rétt” leið að því að leysa sína leikstöðu].

Balsom var, líkt og mjög mörgum ráðstefnugestum og fyrirlesurum, mjög umhugað um spurninguna; “Hvaða kröfu gerir leikurinn til leikmanna”. Þeirri spurningu hafa menn reynt að svara með því að greina hreyfingar og vinnuframlag leikmanna – yfirleitt þeirra sem leika í hæsta gæðaflokki. Ég held að menn hafi byrjað á þessu á 10. áratugnum með því að stilla upp 11 kvikmyndavélum og fylgjast með hverjum og einum leikmanni í gegnum heilan leik. Að því loknu settust menn niður og horðu á öll herleigheitin og flokkuðu hreyfingar og vinnuákefð hvers og eins leikmanns. Ætli það hafi ekki verið þá sem menn áttuðu sig á því að knattspyrnumaður stendur, gengur eða joggar um 75% af leiknum. Flestir hafa horfið frá þessari aðferð í dag þó svo hún sé ennþá ódýrasti og jafnframt nokkuð áreiðanlegur kostur fyrir t.d. þjálfara á Íslandi.

Ég heyrði á fólki að GPS kerfin væru ekki álitin eins góður kostur og áður var þar sem komið hefur í ljós að talsvert mikil skekkja er í þeim mælingum og t.d. missa GPS kerfin mikið af stystu sprettunum og stefnubreytingunum, sem eru þó einn mikilvægasti hluturinn í íþróttinni. Kostnaðurinn við þessi kerfi er þó viðráðanlegur, jafnvel fyrir týpískan íslenskan þjálfara, og vel hægt að fá upplýsingar frá þeim sem gagnast.

Jan Ekstrand

Prof. Jan Ekstrand, læknir og ráðgjafi og starfsmaður UEFA til margra ára var enn einn gríðarlega reynslumikli fyrirlesarinn og ræddi um almennar leiðir til þess að halda leikmönnunum inni á vellinum og af meiðslalistunum. Hérna var mættur félagi sem var ekkert að draga tölur og staðhæfingur út úr óæðri endanum heldur byggði sitt mál að mestu á þeirri upplýsingasöfnun sem hann hefur farið fyrir sem UEFA Medical Committee Vice Chairman frá árinu 2001. Mér þótti gríðarlega áhugavert að heyra að UEFA hefur nú í nokkur ár verið í samstarfi við öll lið sem hafa tekið þátt í Champions League um að safna nákvæmum gögnum um öll meiðsli við liðunum. Liðin taka ekki þátt í þessu samstarfi í þágu vísindana heldur vegna þess að í staðinn fá þau reglulegar skýrslur byggðar á þessum gögnum sem gerir þeim kleift að bera sig saman við það sem er normið hjá hinum CL liðunum. Þannig geta liðin séð hvort þau séu fyrir ofan meðaltalstíðni meiðsla og hvort ákveðnar tegundir meiðsla séu algengari eða fátíðari hjá sér miðað við aðra. Liðin sjá aðeins meðaltöl en fá ekki nákvæmar upplýsingar um hin liðin. Enn áhugaverðari þótti mér sú staðreynd að UEFA Medical Committe tekur saman “leynilegan lista” þar sem haldið er utan um gögn um meiðslatíðni hvers og eins þjálfara. Þannig geta menn séð hvernig “meiðsla-prófíll” hjá liði breytist fyrir og eftir breytingar á knattspyrnustjórum. Talandi um safaríkan lista af fá að komast í og leka í blöðin!  Annars kom Ekstrand með hrikalega margar áhugaverðar staðreyndir, sumar kunnuglegar aðrar nýjar fyrir mér. Hér eru nokkrar þeirra, byggðar á gagnasöfnun í 18 löndum meðal 75 liða frá 2001 til dagsins í dag;

 • Leikmenn liðs sem tapar leik meiðast oftar en þeir sem ná jafntefli og þeir sem vinna meiðast síst.
 • Því mikilvægari sem leikurinn er, því hærri er meiðslatíðnin.
 • Meiðsli eru 40% algengari í N-Evrópu samanborið við S-Evrópu. Líklega samblanda af leikstíl liðanna, veðurfari og undirlagi.
 • Margoft hefur komið í ljós að nánast línulegt samband er milli árangur í móti og tíðni meiðsla. Því færri meiðsli sem hrjá liðið því hærra endar liðið í töflunni – eða kannski er orsakasamhengið öfugt?
 • Algengustu meiðsli evrópskra knattspyrnumanna eru aftanlæristognanir (13%), nárameiðsli (9%) og ökklameiðsli (7%).
 • Meiðslatíðni á æfingum er sú sama óháð því í hversu sterkri deild liðið spilar í. Hins vegar hækkar meiðslatíðnin í leikjum í takti við styrkleika viðkomandi deildar.
 • Krossbandsslit eru algengari í S-Evrópu samanborið við N-Evrópu en þar er þó meira um að fyrri meiðsl taki sig upp á ný.
 • Meiðslatíðnin er næstum sú sama, ef eitthvað er aðeins lægri, þegar leikið er á gervigrasi samanborið við gras.
 • Sterkustu forspárgildin, þegar kemur að meiðslum, eru fyrri meiðsli og aldur.

Jens Bangsbo hélt fyrirlestur á Íslandi haustið 2006 á vegum KSÍ. Sá fyrirlestur var satt að segja frekar slappur en kallinn var í mun betra formi í Osló.

Deginum lokaði Jens Bangsbo þar sem hann var fyrst með verklega kennslu og í kjölfarið hugleiðingar um það hvernig megi þjálfa upp leikþol knattspyrnumanna. Þar var margt kunnuglegt á ferð svo sem æfingin hans “Deep” sem hann er mjög hrifinn fyrir þolþjálfun. Bangsbo var inni á sömu línu og gamli lærlingur hans Magni Mohr, færeyingur sem hefur tvívegis komið til Íslands og haldið vel sótta fyrirlestra á vegum KSÍ, um það að best sé að þjálfa upp þol knattspyrnumanna með leiklíkum æfingum. Það má segja að með réttu eru götuhlaup á hraðri útleið í þolþjálfun knattspyrnumanna á Íslandi, með sífækkandi steingervingum í þjálfunarbransanum. Stöðugt fleiri eru að átta sig á þeirri staðreynd að þol er mjög sérhæfður eiginleiki og vilji maður undirbúa íþróttamann sem best fyrir sína íþrótt þá er það best gert með hreyfingum og athöfnum sem koma mikið fyrir í íþróttinni. Það sem var áhugavert og nýtt fyrir mér í framsögu Bangsbo, og Mohr þegar ég hlustaði á hann, var sú hugmynd að útfæra og nota hefðbundnar fótboltaæfingar sem þolþjálfun með því að gera leikmönnum sjálfum ljóst að ekki er áhersla á framkvæmdina í sjálfu sér heldur magnið. Þannig má útfæra dæmigerðar uppspils-, fyrirgjafar- eða sendingaræfingar þannig að við bætist knattraks eða hlaupahluti í staðinn fyrir hvíldartíma og þannig megi halda háum vinnupúlsi allan tímann. Margoft hefur maður sjálfur verið leikmaður inni á æfingum hjá þjálfurum sem nota kappleiki sem þolþjálfun en þá yfirleitt þannig að einhver skilyrtur leikur hefur verið settur upp og um leið og leikmenn “læra inn á leikinn” og gerast taktískir til þess að vinna leikinn þá reyna þjálfarar að bæta við reglum svo leikmenn skili tilætlaðri vinnu.

Sem sagt áhersla lögð á magn og vinnuframlag, en ekki gæði, og hafa leikmenn meðvitaða um þessi markmið. Ég var pínu skeptískur á þessa hugmynd allra fyrst þar sem þetta samræmist ekki alveg þeirri hugmyndafræði að þjálfa tæknileg atriði án uppsafnaðarar þreytu í taugakerfi til þess að bæta og/eða viðhalda góðri tæknilegri getu. Móttökur, fyrirgjafir og sendingar er það sem þú vilt vera að fínpússa hverju sinni en ekki drekkja mönnum í ótal endurtekningar undir þreytu. Það myndi bara að gera okkur betri í því að framkvæma viðkomandi tækniatriði illa. Á hinn bóginn þurfa íþróttamenn auðvitað að geta framkvæmt flest undir álagi og þreytu og líklega er réttast að vinna líka þannig með þann þátt í þjálfun eldri leikmenn en leggja áherslu á ferskleika í tækniþjálfun hjá börnum og unglingum.

Deep - Bangsbo

“Deep”. Leikið á völl með mörkin öfugt á teigum. Æfing sem margir þjálfarar hafa notað en einhverjir hugsanlega undir röngum formerkjum(?).

Hér hugsa ég að finna megi gullinn meðalveg. Það er að segja þjálfa viðkomandi tækniatriði bæði þegar leikmenn eru óþreyttir en aðra daga nota jafnvel sömu eða svipaðar drillur fyrir þolþjálfun. Stóri plúsinn við það er að það er mun auðveldara að “mótivera” leikmenn til þess að stunda þolþjálfun ef hún líkist leiknum og bolti er með í spilinu. Ég sé augljósa kosti við það að nota t.d. uppspils- og fyrirgjafaræfingar sem þolþjálfun og ekki kappleiki. Málið er að þegar það er búið að skipta í lið og menn byrja að keppa þá fljúga út um hitt eyrað einhverjir óskir þjálfarans um að hlutirnir séu gerðir á einhvern sérstakan hátt, sem eiga að skila meiri hlaupum en ekki endilega sigri í leiknum. Íþróttamenn vilja jú alltaf sigra og margir eru tilbúnir að fara á svig við leikreglurnar til þess.

Umræður í lok Dags 2
Fram að þessu hafði mikið verið rætt um ýmsar mælingar og test út frá ólíkum vinklum – allt kunnuglegar umræður þar á ferð svo sem. Bangsbo átti þó eina eftirminnilega setningu í því samhengi sem ég punktaði hjá mér; “No test in the world will tell you if the player will perform badly og good. You can only isolate a certain parameter and see if a weakness or strength lies there”. Þetta þótti mér heilbrigð sýn á mælingar íþróttamanna. Ég eins og eflaust margir aðrir þjálfarar hef oft tilhneigingu til þess að mæla breytur (parametra) sem auðvelt er að mæla án þess að vega og meta hvort þessi einstaka breyta sé það mikilvæg, eða merkilegri en einhver önnur breyta, að vert sé að taka tíma af þjálfuninni til að skoða hana nákvæmt. En þessi mál áttu eftir að koma talsvert meira við sögu á komandi dögum ráðstefnunnar.

Þriðja og fjórða ráðstefnudaginn mun ég taka saman í öðrum pistli.

Fréttir af UEFA.com um ráðstefnuna Frétt 1  – Frétt 2