Gott er að hafa eftirfarandi í huga þegar kenna á einhverja ákveðna líkamlega eða tæknilega færni:

 1. Leyfðu einstaklingnum fyrst að prófa og kanna viðkomandi atriði án þess að vera undir pressu um keppni við andstæðing/tíma eða kröfum um að gera hlutinn hárrétt. Á þessu stigi sættum við okkur vel við mistök og vitleysur sem kunna að vera gerðar
 2. Stilla æfingaumhverfinu þannig upp að viðkomandi atriði sé stýrt og haft í þannig farvegi að minni líkur séu á algengum tæknilegum vitleysum.
 3. Bæta við áreiti, svo sem kalli/stýringu frá þjálfara, sjónræni áreiti sem krefur leikmanninn til viðbragðs eða samspil við andstæðing.
 4. Bæta við pressunni sem fylgir því að keppa við tíma eða andstæðing í æfingu þar sem viðkomandi færni er undirstaðan.

Ef við tökum dæmi um þetta þá er margátta hlaupatækni tilvalin. Hraðir leikmenn í margátta íþróttagreinum, eins og boltagreinunum öllum, er það sem allir þjálfarar vilja og gera oftast mestan gæfumun. Það sem er hins vegar frábrugðið línulegri hlaupatækni (hlaup þar sem ekki þarf að breyta um stefnu snöggt) er það að í raun þarf boltaíþróttamaðurinn að verða góður í því að hægja á sér á sem hagkvæmastan og hraðan hátt áður en auka má hraðann í aðra átt. Ef líkamsstaðan og stjórnin er léleg þegar hægt er á sér, eru mun minni líkur á því að við getum breytt um stefnu hratt og örugglega.

Sem sagt, ef þú vilt hraða unga leikmenn þá þarftu að kenna þeim að hægja á sér fyrst. Ef við fylgjum leiðbeiningunum hér að ofan þá mætti þjálfa afhröðunarfærnina upp á eftirfarandi hátt:

1.  Leyfðu leikmönnunum að hlaupa frjálst um stórt svæði þar sem þeir eiga, algjörlega þegar þeim hentar, að auka hlaupahraðann og hægja snöggt á sér þegar þeim sýnist þannig að þau endi í gangstöðu (til skiptis með hægri og vinstri fótur fyrir framan)
2.  Strax í kjölfarið getur þú farið yfir það hvernig æskileg stopp-staða er:

  • Við viljum að þungamiðjan búksins sé inn fyrir tærnar
  • Bakið beint og brjóstkassi og andlit vísa beint fram
  • Hné beint yfir ökklum og þungi fram í táberg beggja fóta.
  • Hendur í ákjósanlegri hlaupastöðu (upp við handakrika / niðri við vasa).

3.  Þá getum við endurtekið fyrstu æfinguna okkar þar sem við leyfum leikmönnunum að spreyta sig á ný með nýju fyrirmælin í huga.
4.  Næst getum stýrt framvindunni enn frekar með því að ákveða að leikmennirnir eigi að hlaupa rösklega fram og staðnema á ákveðinni línu fyrir framan.
5.  Þá getum við farið að ögra leikmanninum með því að láta hann hlaupa fram á góðri ferð og staðnema ekki fyrr en þjálfarinn kallar eða flautar. Hér höfum við bætt nýrri vídd við færnina þar sem leikmaðurinn þarf að vinna úr upplýsingum og bregðast við á fyrirfram ákveðinn hátt, þeas. á réttan hátt þar sem líkamsstaðan helst góð þegar staðnumið er.
6.  Loks má bæta við þetta fjölmörgum mögulegum útfærslum af keppnum þar sem tveir eða fleiri leikmenn fara í gegnum keppni þar sem viðkomandi færni er í höfuðhlutverki.
7.  Þegar þessi færni hefur verið þjálfuð vel upp er kjörið að byggja ofan á hana frekar þannig að í kjölfarið á stoppi kemur stefnubreyting, t.d. að bakka 3-4 skref eftir að hafa veriða að hlaupa áfram.

Það sem okkur hættir oft til er að hoppa beint í skref 5, jafnvel 6 eða 7, áður en búið að fara nægilega oft í gegnum tæknilega grunninn sem þarf að vera til staðar svo að byggja megi ofan á hann aðra færni. Það er lítið mál fyrir þjáfara að setja upp allt í keppni og skemmta þannig iðkandanum en það er meira krefjandi og gefandi að hafa raunveruleg áhrif á getu einstaklingsins með þolinmæði, nægjanlegum endurtekningum og réttri endurgjöf og framþróun þjálfarans á æfingum þar sem reynir á viðkomandi færni.