Byrjum á því versta

Ekkert er verra en að byrjað daginn á því að svíkja samninginn sem þú gerðir við sjálfan þig kvöldinu áður um það að þú ætlaðir að vakna á einhverjum tilteknum tíma. Algeng afsökun frá ,,snooze-urum” er að það sé svo þægilegt að slefa í móki milli svefns og vöku og þess vegna stilli þeir jafnvel klukkuna fyrr til þess að snooza. Þá er mun betra að ná lengri ótrufluðum svefni og hætta ekki á það að sofa yfir sig. Verst af öllu slæmu er þó að svíkja sjálfan sig. 

Það besta

Á hverjum einasta degi blasir við okkur tækifæri til þess að verða betri. Þegar við vöknum eftir góðan nætursvefn er hugurinn ómengaður og tær eins og ógárað vatnsyfirborð. Á þeirri stundu getum við streymt uppbyggilegum straumum ofan í undirmeðvitundina og haft áhrif á hegðun okkar þann daginn.

Sérhver dagur er tækifæri. Nýttu það!

Svona nýtir þú best mikilvægustu mínútu hvers dags. Byrjaðu á því að rísa á fætur og búa um rúmið þitt! Að þeirri 10-20 sekúndna athöfn lokinni horfðu á frágengið rúmið og segðu við sjálfa(n) þig með sannfæringu:

,,Ég klára hluti”

Og fylgdu þeirri setningu eftir með:

,,Í dag verður góður dagur”

… með sterkri sannfæringu. Sjálfur kreppi ég ávallt hnefann á meðan ég hugsa þessa setningu, píri augun og glaðbeitt brosi létt. Með því að byrja hvern dag á því að leysa fyrsta verkefnið sem blasir við þér gerir þú það líklegra að endurtaka þá hegðun að klára þau verkefni sem bíða þín þennan dag sem og aðra. Að búa um rúmið sitt er táknrænt mikilvæg athöfn.

Í upphafi skal upphafinu sinnt.

Þegar kemur að ungum íslenskum íþróttamönnum þá er það mín reynsla að hrár vöðvastyrkur er sá eiginleiki sem er hvað verst þjálfaður hjá þeim, það er að segja einfaldlega getan til þess að færa sem þyngstan hlut frá einum stað til annars óháð því hversu langan eða stuttan tíma það tekur. Vissulega er hraði vinnunnar sem við skilum mikilvægur í næstum öllum íþróttum, en þessi tegund af styrk er lagið í píramídanum sem hröð vinna byggir á. Með því að breikka og stækka þessa undirstöðu getur íþrótttamaðurinn aukið möguleika sína á hraða, rétt eins og stærri bílvél er líklegri til þess að skila meira afli en lítil vél.

[meira…]

Ég byrjaði að þjálfa árið 2005 og þá fyrir algjöra tilviljun. Ég hafði fram að því látið mér nægja að vera stútfullur af sjálfum mér og hvernig best væri að ég sjálfur æfði. Það hvarflaði ekki að mér að eitthvað að þeirri vitneskju gæti nýst öðrum, fyrr en ágætir menn ýttu mér inn í þjálfarastarfið. Ég fann þá strax að ég hafði fundið mína hillu.

Má ég kynna fyrir ykkur Coach Frankenstein

Ég hef mikla ástríðu fyrir því að búa til íþróttamann. Að hafa áhrif á framgöngu hans inni á íþróttavellinum. Að gera einhvern betri í dag en hann var í gær. Það er gríðarlega nærandi fyrir þjálfarann að verða sjálfur vitni af framförum eða fá staðfestingu annarra á þeim. Innst inni snýst þetta í raun um að búa til betri einstakling, betri samfélags- þátttakanda og það hafa jákvæð áhrif á umhverfið gegnum annað fólk. Á yfirborðinu látum við þetta snúast um það að gera hvern og einn leikmann betur í stakk búinn til þess að takast á við þau verkefni sem mæta honum á íþróttavellinum, sem eru á sama tíma einfaldaðar útgáfur af verkefnunum sem mæta okkur dags daglega utan vallar. Þessi pistill er létt samantekt á því hvernig sýn mín á það hvernig sé best að “búa til íþróttamann” hefur þróast þennan sl. tæpan áratug, og hvernig ég nýlega áttaði mig fyllilega á því að ég var að misskilja það allt, alveg frá upphafi!

[meira…]

Hlaupagetu knattspyrnumanna á að vinna með inni á vellinum og í takkaskóm. Því eldri og reyndari sem íþróttamaðurinn er því sérhæfðari þarf þjálfun hans að vera en í gegnum tíðina hefur það viðgengist í knattspyrnuheiminum að þjálfa upp hlaupagetuna á mjög ósérhæfðan hátt. Hlaup á malbiki, í hlaupaskóm, í beina línu, langa vegalengd, í langan tíma og á jöfnum hraða. Þú kemst varla mikið fjær því hvernig knattspyrnumenn þurfa svo að hreyfa sig inni á vellinum! Í ofanálag finnst langflestum leikmönnum útihlaup vera drepleiðinleg, sem sérstaklega skyldi ekki vanmeta í skipulagi þjálfunar á áhugamönnum eða “hálf-áhugamönnum”. En tímarnir hafa breyst hratt sl. ár og risaeðlurnar eru að deyja út. Sífellt fleiri þjálfarar reyna að þjálfa sem flesta þætti leiksins inni á vellinum sjálfum. Næsta skrefið í þróuninni er taktísk efnaskiptaþjálfun!

[meira…]

31. ágúst 2012, ÍR-völlurinn, ÍR gegn Haukum í 1. deild karla í knattspyrnu.

Ég á staðnum í stuttbrók, í miðri vörninni þar sem maður  hefur oft fátt annað að gera en að rífa kjaft út í loftið. Komið fram á 80. mínútu og staðan er 0-1 okkur Haukum í hag en ÍR-ingar farnir að herja á okkur sífellt meir. Há sending kemur yfir vörnina okkar og ég lendi í kapphlaupi sem ég næ að redda en … KaBúmm! Hinn hræðilegi “spretthlauparaseiðingur” hríslast upp allt aftanvert lærið á mér, frá hnésbót upp að rasskinn. Ég er á barmi þess að togna hraustlega aftan í læri!

Tognanir á aftanverðum lærvöðvum eru algengstu meiðsli knattspyrnumanna – af hverju?

Á einhvern ótrúlegan hátt næ ég að klára leikinn, aðallega með því að rífa enn meiri kjaft og skipa öllum hinum í liðinu að hlaupa þeim mun meira svo ég þurfi ekki að hreyfa mig. Við náum óverðskuldað að lauma inn öðru marki og siglum sigrinum heim en með fórnarkostnaði af minni hálfu. Ástand mitt síðustu mínútur leiksins og strax eftir leik var þannig að mér fannst að ef ég hefði svo mikið sem beygt mig fram til að reima skóna og rekið við á sama tíma þá hefði ég rifið aftanverðan lærvöðvann. Það voru 4 dagar í næsta leik!

Hvernig í ósköpunum fór ég að því að ná þeim leik? Og hvað olli því að ég tognaði nánast?

[meira…]

Þetta er fyrsti og mjög líklega einn af sárafáum pistlum um mataræði sem ég mun birta á þessari síðu. Ekki það að matur og matarvenjur skipti ekki miklu máli fyrir íþróttamenn heldur því það virðist vera nóg af fólki að skrifa og tjá sig um þau mál. Reyndar sýnist mér æði oft mikið af því fólki hvorki sjá tréið sjálft né hvað þá skóginn fyrir laufblaðinu sem þau stara á í gegnum stækkunargler. Hlutirnir eru ekki eins flóknir og margir vilja láta. Ég fæ reglulega spurningar um mataræði og fæðubótarefni. Mikið af þeim spurningum ætla ég beint og óbeint að reyna að svara hér í þessu næringarfræðilega æviágripi mínu og útlistun á því sem ég tel mikilvægustu atriðin sem snúa að fæðu og tengdri hegðun.

[meira…]

Sem styrktarþjálfari er mikilvægt að vera í góðu sambandi við íþróttaþjálfarana sem maður vinnur með. Það hjálpar að vera almennt inni í málunum hjá flokknum og vita hluti eins og hvernig leiktímabilinu er háttað, þekkja leikmennina aðeins og vita hvernig íþróttamenn þeir eru inni á vellinum, hverjir líkamlegir veikleikar og styrkleikar hópsins eru almennt, osfrv. Ef um meistaraflokk er að ræða eru þetta allt lykilatriði. Ég kann alltaf að meta það þegar íþróttaþjálfararir miðla upplýsingum og tel það merki um metnað og fagleg vinnubrögð hjá viðkomandi íþróttaþjálfara.

Stundum fær maður hins vegar upplýsingar frá íþróttaþjálfurunum sem opinbera misskilning þeirra á því hvað styrktarþjálfun getur gert og hvað ekki. Í gegnum tíðina hef ég oftar en einu sinni átt samræður við íþróttaþjálfara sem fara um það bil einhvern veginn svona fram:

Íþróttaþjálfarinn: Heyrðu, við erum að fara að keppa mikilvægan leik þarnæstu helgi.

Ég: Ok.

Íþróttaþjálfarinn: „Svo ég var að pæla hvort við gætum breytt aðeins prógramminu fram að því, tekið smá hopp og sprengikraft og reynt að hafa þá ferska og kraftmikla um þarnæstu helgi.“

Ég: „Uhh, ok“

[meira…]

Ég var að bæta við efni efni á síðuna sem þjálfarar barna og unglinga ættu endilega að skoða. Í valstikunni að ofan undir “Æfingar” -> “Æfingar 8-14 ára” er áhugavert efni fyrir þá alla þá sem vilja kynna börn og unglinga fyrir líkamlegri þjálfun undir jákvæðum og skemmtilegum formerkjum.

Flemming Serritslev var m.a. aðstoðarþjálfari sigurliðs Dana á EM 1992. Kallinn sýndi góða takta í verklega hlutanum á ráðstefnunni.

Ég skellti mér á Bikarúrslitaráðstefnuna KSÍ um daginn og hlustaði á danann Flemming Serritslev tala um mat á hæfni knattspyrnumanna auk umræðu um bikarleikinn sem fór fram seinna um daginn og reyndist algjör reyfari. Það er alltaf hollt að sækja námskeið og ráðstefnur því jafnvel þó pælingar fyrirlesaranna eða annarra séu kunnuglegar þá verða þær yfirleitt að minnsta kosti kveikja að nýjum pælingum hjá manni sjálfum. Það örvar heilabúið að heyra aðra deila sinni reynslu og vitneskju. Ég hef heyrt ýmsa þjálfara tala um að maður eigi að taka frá 5 og upp í 10% af innkomu sinni sem þjálfari og fjárfesta þeirri upphæð í áframhaldandi menntun, bækur, diska og fleira í þeim dúr. Ég hef ekki reiknað út þetta hlutfall hjá mér en held að það sé hverjum þjálfara, en sér í lagi þjálfurum í fullu starfi, hollt að reikna þetta út því stöðunun er dauði – ekki satt!?

Á þessari ráðstefnu spratt upp hjá mér vangavelta sem var algerlega óháð því sem Flemming kallinn var að tala um: Hvaða mælikvarða höfum við á árangur í þjálfun fullorðinna í hópíþróttum? Sem styrktarþjálfari þá met ég árangur þjálfunarinnar með líkamlegum frammistöðumælingum, skráningum á meiðslum og mætingum iðkendanna til að sjá hvort jákvæð eða neikvæð trend eru í gangi. Ef liðið mitt bætti lóðrétta stökkkraftinn sinn í fyrra um 10% yfir ákveðið tímabil en hópurinn í ár bætti hann um 20% þá var ég að gera eitthvað betur það árið. Mjög einfalt og árangurinn mælanlegur. En hvernig er það með frammistöðu liða í deildakeppni, hvaða mælikvarða höfum við eða ættum að hafa þar?

[meira…]

Þúskjárinn opinn

Í einni “viskubók” las ég margt sem opnaði augu mín, og meðal annars það að það væri hægt að stela á þrenns konar hátt;

  • Að taka hlut sem þú átt ekki.
  • Að koma í veg fyrir að hlutur komist í hendur síns eiganda.
  • Að hugsa um það eða hugleiða að stela.

Liggur þú eins og ormur eða öllu heldur dreki á þínu “gulli”?

Áður fyrr býst ég við því að ég hafi haft það á tilfinningunni að ég væri að gefa öðrum tækifæri á því að stela minni vinnu ef ég hefði t.d. æfingamyndböndin og fyrirlestra mín aðgengilega, prógrömmin sýnileg í lyftingasalnum utan æfinga, eða eitthvað af skipulagi minnar vinnu opinbert á einhvern hátt. Í dag er ég á annarri skoðun og trúi því staðfastlega að það að deila sinni vitneskju sinni með öðrum muni aðeins verða til þess að fleiri dyr opnist og vitneskja manns og “auður” muni vaxa í kjölfarið. Þess vegna gerði ég nánast öll æfingamyndböndin mín aðgengileg á youtube-rásinni minni:

 http://www.youtube.com/user/mannsraekt.

Þarna getið þið séð æfingarnar, ásamt útskýringum á þeim, sem ég er að nota mest. Ég myndi giska á að ég eigi myndband af um 90% af æfingunum sem ég nota í styrktarþjálfun. Hin 10% eru á 2-do upptökulistanum.  Auk þess eru fjölmargir playlistar sýnilegar þarna sýnilegir sem sýna í hvaða röð hvaða æfingar eru í nokkrum prógrömmum sem ég hef sett saman, þó svo tímaseðilinn sjálfan sé ekki að finna þarna. En það er enn á dagskrá að gera þetta allt aðgengilegt hérna á síðunni. Það gerist einn góðan daginn. Vonandi gagnast þetta einhverjum þangað til.

Langar þig að mæla lóðréttan stökkkraft, langstökk, hraða eða snerpu? Áttu tölvu og myndavélasíma eða einhverja einfalda stafræna upptökuvél? Þá þarftu bara að redda þér þrífæti eða einhverju stöðugu sem síminn/myndavélin getur hvílt á og þér er ekkert að vanbúnaði. Leiðbeiningarnar í þessu myndbandi leiða þig í gegnum sannleikann um það:

Tvisvar á ári fer ég með mína íþróttamenn í gegnum ýmsar mælingar og í nokkrum af þeim nýti ég mér til hins ítrasta aðferðafræðina sem er sýnd í myndbandinu og get þannig framkvæmt 6-7 líkamlegar mælingar á milli 50-100 manns á ca. 90 mínútum! [meira…]

Fyrir ekki svo löngu fékk ég óvænta og kærkomna hringingu frá Sigurður Ragnari, fræðslustjóra KSÍ, sem sagði mér að hann vildi bjóða mér á UEFA ráðstefnu sem bar heitið Fitness in Football og átti að fara fram í Oslo þann 11.-14. mars. Á ráðstefnunni var boðið tveimur einstaklingum frá knattspyrnusamböndum 20 Evrópuríkja sem komu að menntunarmálum og “fitness”-þjálfun hjá hverju sambandi. Ég þáði boðið með þökkum. Upphaflega átti Janus Guðlaugsson að stýra för en hann neyddist til að afboða. Dagur Dagbjarts, starfsmaður KSÍ hljóp þá í skarðið en kastaði einnig inn hvíta handklæðinu korteri fyrir brottför, svo það kom í minn hlut að fara einn á þessa ráðstefnu fyrir hönd KSÍ og Íslands.

Forsagan að þessari ráðstefnu er  sú að UEFA hefur um skeið íhugað að búa til menntagráðu á sviði ástandsþjálfunar knattspyrnumanna, líkt og hefur verið gert með svokölluð UEFA-A og B licence (knattspyrnuþjálfara), markmannsþjálfaragráðu, barna- og unglingaþjálfaragráðu osfrv. Eftir að hafa rætt við forsvarsmenn knattspyrnusambandanna hefur UEFA ákveðið að bíða með að útbúa slíka gráðu, þar sem í ljós kom að mjög svo ólíkar hugmyndir þrífast innan hvers og eins lands um það hvernig eigi að undirbúa líkama knattspyrnumanna sem best fyrir sjálfan leikinn.  Í staðinn var ákveðið að setja upp þessa “frumherja-ráðstefnu” (pilot seminar) þar sem fagmenn á þessu sviði frá ólíkum löndum gætu hist og rætt ólíkar nálganir.

Að neðan er samantekt mín um málefni ráðstefnunnar sem ég skilaði til KSÍ þar sem ég tek saman það helsta og áhugaverðasta sem fram kom í máli forsögumanna ráðstefnunnar sem og eigin vangaveltna og þess áhugaverða sem fór á milli mín og annarra í kaffi- og matarpásum, sem oft reynist ekki síður gagnlegt þegar upp er staðið. [meira…]

Þetta er “pólitískt rangur “pistill!

Stundum er nauðsynlegt að synda á móti straumnum!

Tilefnið að þessum hugrenningum var pistill Kolbeins Tuma Daðasonar sem bar heitið “Manndóminum fórnað fyrir rautt spjald“. Þar segir m.a. að “[þ]að færist í vöxt og sér ekki fyrir endann á því hve lágt knattspyrnumenn leggjast til þess að bæta stöðu síns liðs”, en þar vísar hann til þess að einum Frammara hafi tekist að ýkja afleiðingar þess þegar einn Keflvíkingur ýtti við honum svo að sá síðarnefndi fékk rauða spjaldið í knattspyrnuleik nýverið.

Svindlarar, leikararskapur, aumingjar og álíka upphrópanir eru oft notaðar þegar svona atvik koma upp. Ég ætla að voga mér að taka annan vinkil á þetta og fullyrða að þessi hegðun sé bæði mannskepnunni fullkomlega eðlileg og einnig beinlínis það sem leikurinn snýst um; Að blekkja og að fá sem mest fyrir minnst. [meira…]

Varúð! Þeir sem fara eftir æfingaáætluninni sem hér er kynnt gætu aukið lóðréttan stökkkraft sinn um 40% á 9 vikum!

Olympískt hopp

Æfingaáætlunin hefur þó ekkert með ólympískar lyftur að gera.

 

Ég gef mér að ég hafi náð athygli margra með þessari upphrópun. Yfirleitt eru svona staðhæfingar kjaftæði. En í þetta skiptið hef ég talsvert af gögnum sem ég hef safnað sl. 5-6 ár til þess að bakka þetta upp. Bakgrunnurinn er sá að árið 2007 spurði ég Þorvald Skúla sjúkraþjálfara hvernig hann myndi vinna með hné valgus sem kæmi fram í hopplendingum hjá ungum íþróttamanni. Valdi var ekki lengi að snara fram hnausþykkri möppu stútfullri af rannsóknargreinum og öllu efninu sem hann fékk á námskeiði hjá Sportsmetrics, sem eru amerísk “non-profit” læknasamtök í  Ohio sem hafa sl. ca. 15 ár ekki gert neitt annað en að rannsaka og finna leiðir til að fyrirbyggja krossbandsslit, en valgus í lendingum og stefnubreytingum er einmitt einn af undirliggjandi áhættuþáttum þegar kemur að krossbandsslitum.

[meira…]

Fyrir þá sem ekki hafa þrætt alla króka og kima á þessari síðu þá hef ég upp á síðkastið bætt við talsvert af upplýsingum undir yfirborðinu hér á síðunni. Til dæmis hef ég sett nokkrar mjög skemmtilegar umsagnir frá ýmsu fólki úr íþróttagreiranum sem ég hef unnið með í gegnum tíðina undir “Umsagnir” og svo er ýmislegt annað fróðlegt að finna undir valmyndinni hér að ofan. Endilega gefið ykkur tíma í að kíkja á það.

Það sem enn stendur út af borðinu er að gera æfingabankann minn aðgengilegan sem og mikið af prógrömmunum sem mínir hópar notast við. Ég er þannig bjartsýnismaður að ég held alltaf að hlutir taki engan tíma ef maður bara hendir sér út í þá, en ég skal játa mig sigraðan í því að geta smíðað heila heimasíðu eftir mínu höfði á “núll-einni” og því verð ég að treysta á að stela einum og einum frítíma frá  mér vitrari tölvumönnum til að koma þeim hlutum á flot. Ætlunin er alla vega að gera dálkinn “Æfingar” mun kjötmeiri en hann er akkurat núna.

Tæknilega séð hef ég ekki enn sett þessa síðu neins staðar í loftið nema meðal nokkra hópa sem ég hef haldið fyrirlestra eða erindi fyrir. Draumurinn var að vera með tilbúinn grip í höndunum áður en ég auglýsti síðuna en nú er kominn apríl svo ætli ég slaufi þeirri óskhyggju ekki bara og fari að reyna að dæla fólki og greinum hingað inn.

Fylgist með.

SONY DSC

Frá verklega hluta námskeiðsins

Nýverið hélt ég erindi á námskeiði á vegum UMFÍ og FÁÍA um þjálfun 50 ára og eldri en UMFÍ hefur staðið sig frábærlega sl. ár við að vekja athygli á hreyfingu eldra fólks og þar ber helst að nefna Landsmótið þeirra fyrir 50 ára og eldri sem ég beinlínis er farinn að hlakka til að taka þátt í eftir 18 ár.

Þetta erindi var kærkomið tækifæri fyrir mig að taka saman þá hugmyndafræði um þjálfun eldra fólks sem hefur verið að gerjast hjá mér sl. 6-7 sem ég hef verið að þjálfa eldri borgara hjá Haukum. Í stuttu máli, sem má kynna sér betur með því að lesa glærurnar úr fyrirlestrinum mínum hér fyrir neðan, þá hefur þjálfun þessa aldurshóps þróast hvað mest hjá mér. Frá því að vera eitthvað “krúttlegt”- og “voða fínt að eldra fólk sé að halda sér við”-hugarfari þá hefur þetta orðið að mjög markvissri þjálfun til þess að viðhalda starfsgetu sem best.

Að mínu viti á  starfræn þjálfun hvað mest við þennan hóp fólks því á þessum aldri býrðu ekki að því að geta komist upp með að æfa á misgáfulegan hátt en engu að síður séð framfarir líkt og við getum því miður oft komist upp með þegar líkaminn er í fullum blóma. Hjá öldruðum er það lífspursmál að viðhalda göngu-getu, styrk, samhæfingu og jafnvægi því annars ertu mættur einhverjum árum fyrr í hjólastólinn og/eða þarfnast ummönnunnar á stofnun. Mikilvægi þess að þjálfa rétt og markvisst á þessum árum er krítískt.

Hér í þessum glærum getið þið kynnt ykkur ágætlega þá aðferðafræði sem ég hef verið að þróa sl. ár:

Í pistlaseríunni “Hugmyndafræðin” ætla ég að útlista og útskýra mína þjálfunarhugmyndafræði eins og hún er í þeim skrifuðu orðum. Ég vill strax slá þann varnagla að ef ég er sá þjálfari sem ég reyni að vera þá mun eitthvað í þessum pistlum orðið úrelt eftir einhver ár. Ef ekki, þá hef ég staðnað og hætt að leita betri leiða til þess að þjálfa íþróttamenn. Það verða nefnilega alltaf til betri leiðir þegar kemur að einhverju svona yndislega fjölbreytilegu og flóknu eins og mannslíkamanum, mannsandanum og hópsálinni. En engu að síður þá trúi ég á þá hugmyndafræði sem ég vinn eftir í dag – alla vega nógu mikið til þess að vilja deila henni með öðrum áhugasömum um þjálfun. Vonandi næ ég að opna augu einhverra og einnig fá uppbyggilega umræðu og gagnrýni á mínar meiningar.

Asafa Powell

Það er leitun að fallegri hreyfingum en þessum sem spretthlauparinn Asafa Powell býr yfir.

Í þessum pistli ætla ég að ræða það sem er fyrir mér eitt helsta grundvallaratriðið í þjálfun íþróttamanna; HREYFINGAR – EKKI VÖÐVAR. Fyrir einhverjum er þetta kannski sjálfsagður og jafnvel gamall frasi en fyrir mörgum held ég að þetta sé ný pæling. Hún er einföld; Íþróttamenn eiga að styrktarþjálfa með hreyfingarnar í huga, en ekki vöðva. Hvað á ég við með því? Eins og landið liggur í dag er kannski nærtækast og best að byrja á því að lýsa því sem ég á ekki við; Íþróttamenn eiga ekki að hugsa styrktarþjálfunina líkt og vaxtaræktarmaður þar sem menn “taka bak í dag”, “lyfta brjóst og axlir alltaf á fimmtudögum” og “gera ekki upphífingar af því það vinnur ekki með neinn einn ákveðinn vöðva”.

[meira…]

Ég skrifaði pistil undir þessari fyrirsögn á síðuna ithrottir.is árið 2011 og fékk hann talsverða athygli enda hann skrifaður viljandi í þannig stíl. Sérstaklega gaman hafði ég af því að fá langan tölvupóst frá einum sjúkraþjálfaravini mínum sem ekki var alveg sammála mér. Ég stakk upp á því að við myndum standa í opinberum ritdeilum, upp á gagn og gaman, en ég gaf mér aldrei tíma í það. Kannski að ég komi þeirri ritdeilu af stað í kjölfarið á þessari endurbirtingu.

Í mjög stuttu máli, máli sem ég mun eflaust ræða mun ítarlega einhvern tímann seinna hér á þessari síðu, þá gengur hugmyndafræðin sem ég vinn eftir út á það að þjálfa búkinn upp í samræmi við þá vinnu sem hann er að vinna mest megnis af tímanum. Sú vinna einkennist af því að streitast á móti hreyfingum á búk en ekki búa til hreyfingu. Þegar við til dæmis sprettum úr spori þá viljum við að búkurinn haldist stöðugur á meðan útlimirnir framkvæma kröfugar hreyfingar. Þess vegna viljum við frekar framkvæma alls kyns plankaæfingar í stað þessa gera kviðkreppur, því ef þú pælir í því þá framkvæmum við sárasjaldan þá hreyfingu í daglegu lífi.

Það sem ithrottir.is er hætt þá ákvað ég að endurbirta og geyma þennan pistil hér:

Kviðkreppur

“Magaæfingar” – rót alls ills?

Gerir þú magaæfingar? Hefur þú kannski einhvern tímann gert magaæfingar til að fá magavöðva eða losna við björgunarhringinn? Ef svo er þá ert þú á algjörum villigötum og ég skal segja þér af hverju.

[meira…]

weight-lifting1Þetta er spurning sem ég hef heyrt oft í gegnum tíðina. Núna síðast fékk ég þessa spurningu um nýliðna helgi þegar ég var að kenna á KSÍ IV knattspyrnuþjálfaranámskeiðinu. Í staðinn fyrir að reyna að svara þessari spurningu stuttlega, sem vekur yfirleitt upp margfalt fleiri spurningar sem þarf í kjölfarið einnig að svara, þá ákvað ég frekar að deila með umheiminum heimildaritgerð sem ég skrifaði vorið 2009, þegar ég var í ÍAK Einkaþjálfaranámi Keilis. Í ritgerðinni leitaðist ég einmitt eftir því að svara þessari spurningu, því ég var sjálfur alls ekki viss um hvað væri rétt eða rangt.

Getur styrktarþjálfun rofið vaxtarlínur?

Gerir styrktarþjálfun börn og unglinga “kubbsleg” og minnkar hreyfigetu þeirra?

Svörin við slíkum spurningum getur þú fundið í ritgerðinni, en niðurstöðurnar sem ég komst að voru talsvert meira afgerandi ég en hafði reiknað með áður en ég sökkti mér í efnið.

 

Bubbi byggir ... upp massa.

Smelltu á forsíðuna til að lesa ritgerðina.

Ég hraðlas yfir ritgerðina rétt í þessu og finnst hún alveg nógu góð ennþá til að leyfa öðrum að lesa. Þó einhverjar stafsetningarvillur og nokkur smáatriði skeri í augu mín þá get ég sagt að þessi ritgerðarvinna mótaði algjörlega minn útgangspunkt í styrktarþjálfun barna- og unglinga og í grófum dráttum er ég ennþá í dag að vinna út frá því sem ég komst að í tengslum við þessi skrif.
Ég hugsa að þessi ritgerð sé fínn upphafsstaður fyrir íþróttaþjálfara unglinga og styrktarþjálfara/einkaþjálfara sem þjálfa yngri aldurshópana. Þú munt ekki finna neinar æfingar eða beinar ráðleggingar um hvernig eigi að nákvæmlega að þjálfa börn og unglinga en hins vegar færðu einhvern ramma í kringum það sem þarf að hafa í huga þegar ætlunin er að þjálfa upp líkamlega þáttinn hjá börnum og unglingum.

Gott er að hafa eftirfarandi í huga þegar kenna á einhverja ákveðna líkamlega eða tæknilega færni:

  1. Leyfðu einstaklingnum fyrst að prófa og kanna viðkomandi atriði án þess að vera undir pressu um keppni við andstæðing/tíma eða kröfum um að gera hlutinn hárrétt. Á þessu stigi sættum við okkur vel við mistök og vitleysur sem kunna að vera gerðar
  2. Stilla æfingaumhverfinu þannig upp að viðkomandi atriði sé stýrt og haft í þannig farvegi að minni líkur séu á algengum tæknilegum vitleysum.
  3. Bæta við áreiti, svo sem kalli/stýringu frá þjálfara, sjónræni áreiti sem krefur leikmanninn til viðbragðs eða samspil við andstæðing.
  4. Bæta við pressunni sem fylgir því að keppa við tíma eða andstæðing í æfingu þar sem viðkomandi færni er undirstaðan.

Ef við tökum dæmi um þetta þá er margátta hlaupatækni tilvalin. Hraðir leikmenn í margátta íþróttagreinum, eins og boltagreinunum öllum, er það sem allir þjálfarar vilja og gera oftast mestan gæfumun. Það sem er hins vegar frábrugðið línulegri hlaupatækni (hlaup þar sem ekki þarf að breyta um stefnu snöggt) er það að í raun þarf boltaíþróttamaðurinn að verða góður í því að hægja á sér á sem hagkvæmastan og hraðan hátt áður en auka má hraðann í aðra átt. Ef líkamsstaðan og stjórnin er léleg þegar hægt er á sér, eru mun minni líkur á því að við getum breytt um stefnu hratt og örugglega.

[meira…]